Enski boltinn

Guðjón: Ég vildi semja við Jamie Vardy

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Þórðarson og Jamie Vardy.
Guðjón Þórðarson og Jamie Vardy. Vísir/Anton/Getty
Knattspyrnuþjálfarinn Guðjón Þórðarson greindi frá því í viðtali á Akraborginni á X-inu í dag að sóknarmaðurinn Jamie Vardy hafi verið til reynslu hjá sér þegar hann var stjóri Crewe á Englandi.

Vardy er í dag heitasti framherji ensku úrvalsdeildarinnar en hann skoraði um helgina í ellefta úrvalsdeildarleiknum í röð sem er met í deildinni.

Sjá einnig: Saga Jamie Vardy er lygileg en alveg fullkomlega sönn

„Það var starfsmaður hjá Crewe, Neil Baker, sem fylgdist með leikmönnum í neðri deildunum og hann kom með þennan strák um okkar,“ sagði Guðjón en Vardy hóf sem kunnugt er feril sinn í utandeildinni á Englandi og var á þessum tíma á mála hjá Stocksbridge Park Steele. Hann var þá 22 ára.

„Hann var hjá okkur í viku eða tvær og var sprækur, skemmtilegur og kvikur. En það endaði þannig að ég vildi semja við hann en fékk ekki heimild til þess,“ sagði Guðjón en yfirmaður knattspyrnumála hjá Crewe lagðist gegn því að samið yrði við Vardy.

Sjá einnig: Vardy sló met Nistelrooy | Sjáðu markið

„Ég vildi fá hann. Hann var horaður eins og handarbakið á manni en afar kvikur og vinnusamur. Hann hefur átt flottan feril þessi strákur - glæsilegan.“

Guðjón segir að það hafi verið orð manna á þessum tíma að hinn 22 ára Vardy væri að verða of gamall svo að hægt væri að semja við hann. „Hann hefði þurft að geta þetta 18 eða 19 ára, það sem hann gerði þá. En það sem maður sá í honum - þessi hreyfanleiki, þessi ófyrirleitni og þessi mikli vilji.“

„Ég var alveg á því að þessi strákur gæti orðið góður í fótbolta en hversu góður var ekki hægt að sjá fyrir. Ég held að enginn hafi séð þetta fyrir, það sem hann hefur afrekað.“

Guðjón fer yfir í viðtalinu hvernig hann sá fyrir sér að nota hann hjá Crewe og bætir við að þeir sömu menn og höfnuðu Vardy voru ekki hrifnir af því Gylfi Þór Sigurðsson kæmi á láni til félagsins á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×