Innlent

Ánægð og þakklát á nýjum vinnustað

ingvar haraldsson skrifar
Steinunn Ása mun sinna ýmsum verkefnum sem tengjast málefnum fatlaðra.
Steinunn Ása mun sinna ýmsum verkefnum sem tengjast málefnum fatlaðra. vísir/vilhelm
„Ég er afar ánægð með að vera byrjuð að vinna þarna og er rosalega þakklát fólkinu á skrifstofunni,“ segir Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, sem hóf störf í síðustu viku hjá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Steinunn er ein af þeim sem rekið hefur kaffihúsið GÆS.

„Ég er að kynnast starfinu hægt og rólega,“ segir Steinunn og bætir við að hún stefni að því að vera borginni til sóma.

Aðspurð hvernig mannréttindamálin standi í Reykjavík segir Steinunn: „Þau standa ágætlega, nema að það vantar kannski meiri umræðu um fatlað fólk og að við séum hluti af samfélaginu.“

Ýmsar leiðir eru færar til að auka umræðu um fatlaða, að sögn Steinunnar. „Það er hægt með aukinni fræðslu og virðingu og með því sporna gegn fordómum,“ segir hún.

„Við erum mjög ánægð með að fá hana til starfa,“ segir Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar. Mikil hjálp sé að Steinunni sem rödd notandans í hinum ýmsu málum. „Svo er hún afskaplega jákvæð og skemmtileg,“ bætir Anna við.

Steinunn mun vinna að hinum ýmsu málefnum fatlaðra, meðal annars taka þátt í starfshópi sem mun fjalla um heimilisofbeldi gegn fötluðum og sinna verkefnum sem snúa að lengri viðveru fatlaðra í framhaldsskólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×