Innlent

Óli Palli flytur ekki á Skagann vegna ódauns

Jakob Bjarnar skrifar
Óli Palli segist ekki vera viðkvæmur fyrir slorlykt, en þessi fnykur sé nokkuð sem ekki er búandi við.
Óli Palli segist ekki vera viðkvæmur fyrir slorlykt, en þessi fnykur sé nokkuð sem ekki er búandi við.
Ólafur Páll Gunnarsson útvarpsmaður, sem jafnan er kallaður Óli Palli, hefur ritað opið bréf til bæjarfulltrúa á Akranesi sem vakið hefur mikla athygli og mikil og viðbrögð, en þar gerir hann að umtalsefni óþolandi fýlu á Skaganum sem stafar frá „fiskhausa-þurrk-fabrikku“ sem staðsett er í bænum miðjum.

Bréfið birtist í gær á Skessuhorni – fréttaveitu Vesturlands. Óli Palli, sem er frá Skaganum, upplýsir að hann hafi lengi ætlað sér að flytja aftur á Akranes eftir að hafa búið á höfuðborgarsvæðinu síðan 1991. Hann hafi haft augastað á gömlu húsi sem hann vill gjarnan gera upp og flytja þangað sig og sína en þegar hann heyrði að til stæði að það ætti að „festa hausaþurrkunarverksmiðju Laugafisks (HB Granda) í sessi til næstu framtíðar með fjárfestingu upp á nokkur hundruð milljónir króna og staðsetning á nýjum húsakynnum starfseminnar myndu jafnvel auka líkur á að lykt berist yfir glæsilegt Akratorgið á góðviðrisdögum,“ runnu á hann tvær grímur. Og Óli Palli spyr hvort virkilega sé ekki nóg landrými annarsstaðar innan bæjarmarka fyrir þessa starfsemi?

Óli Palli lætur kné fylgja kviði og lýkur kröftugri grein sinni með því að skora á bæjarfulltrúa: „Ég skora á ykkur sem ráðið ferðinni á Akranesi í dag að hugsa ykkur vel um áður en þið takið minni hagsmuni fram yfir meiri. Ykkar er tækifærið og tækifærið er núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×