Erlent

Ástfangnir asnar í Póllandi sameinaðir á ný

Atli Ísleifsson skrifar
Napóleon og Antosía eru góð saman.
Napóleon og Antosía eru góð saman. Vísir/AFP
Tveir asnar í pólskum dýragarði hafa verið sameinaðir á ný eftir að gestir dýragarðsins höfðu kvartað sáran yfir að þeir væru statt og stöðugt að maka sig.

Ösnunum hafði tekist að halda ástarblossanum við líf í tíu ár, eignast sex afkvæmi og stefndu líklegast að því að eignast fleiri. Allt þar til að hneykslaðir foreldrar kvörtuðu yfir að börn sín hafi ítrekað þurft að horfa upp á kynlíf asna.

Forsvarsmenn dýragarðsins í Poznan ákváðu í kjölfarið að stía þeim Napoleon og Antosíu í sundur og koma þeim fyrir í aðskildum högum.

Ákvörðunin leiddi til mikilla mótmæla þar sem fleiri þúsund manns skrifuðu undir lista sem var síðar afhentur forsvarsmönnum dýragarðsins. Í frétt SVT kemur fram að sérfræðingar hafi einnig mótmælt og sagt að asnarnir myndu þjást andlega ef þeir þyrftu að lifa í sundur.

Forsvarsmenn dýragarðsins hafa nú beðist afsökunar á ákvörðuninni og segja það aldrei hafa verið ætlunina að láta dýrunum líða illa vegna náttúrulegra hvata sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×