Enski boltinn

Juventus ber víurnar í Evra

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/Getty
Ítölsku meistararnir í Juventus eru á höttunum eftir Patrice Evra, vinstri bakverði Manchester United og franska landsliðsins samkvæmt heimildum SkySports.

Evra sem skrifaði undir eins árs framlengingu á samningi sínum í vor þrátt fyrir sögusagnir að hann væri á förum hefur verið í herbúðum Manchester United í átta ár. Á þeim tíma hefur Evra unnið ensku úrvalsdeildina fimm sinnum og Meistaradeildina einu sinni.

Manchester United gekk frá kaupunum á Luke Shaw á dögunum og er talið víst að hann taki byrjunarliðssæti Evra á Old Trafford. Samkvæmt heimildum SkySports er Juventus tilbúið að greiða tvær milljónir punda fyrir þjónustu Evra.

Ekki er víst hvort United sé tilbúið að leyfa Evra að fara þar sem félagið leyfði Alexander Buttner að fara á dögunum og yrði Shaw því eini vinstri bakvörður félagsins fari svo að félagið taki tilboði Juventus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×