Fimmmenningarnir sem grunaðir eru um að hafa nauðgað sextán ára stúlku voru úrskurðaðir í dag í sex daga gæsluvarðhald, eða til 15. maí. Lögregla fór fram á viku gæsluvarðhald í gær en tók dómari sér frest til að taka afstöðu í málinu.
Nokkrir piltanna hafa þegar ákveðið að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar.
Mennirnir fimm eru á aldrinum sautján til nítján ára. Fórnarlambið er sextán ára gömul menntaskólastúlka sem kærði nauðgunina síðastliðinn miðvikudag. Atvikið mun hafa átt sér stað í Breiðholti aðfararnótt sunnudags og samkvæmt heimildum fréttastofu þekktust hinir ákærðu og fórnarlambið.
Atvikið var tekið upp á myndband og er það komið í dreifingu á netið. Talið er að einn ákærðu hafi tekið myndbandið upp og sett það í almenna dreifingu.
