Erlent

Palestínskur ráðherra lést á mótmælafundi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ísraelskur hermaður sést hér taka ráðherrann hálstaki skömmu áður en hann lést.
Ísraelskur hermaður sést hér taka ráðherrann hálstaki skömmu áður en hann lést. vísir/afp
Fangelsismálaráðherra Palestínu, Ziad Abu Ein, lést í gær eftir átök við ísraelska hermenn.

Abu Ein var ásamt tólf mótmælendum að mótmæla landtöku Ísraelsmanna með því að planta ólífutrjám á svæðum sem nágrannar þeirra ætla sér að taka yfir næst. Er mótmælendurnir nálguðust svæðið biðu þeirra ísraelskir hermenn.

Sjónarvottum ber ekki saman um hve mikil átök brutust út en ljóst er að á einhverjum tímapunkti var táragashylkjum skotið til að leysa hópinn upp. Eitt hylkjanna hæfði Abu Ein í brjóstið og drógu áverkarnir hann til dauða áður en hann komst á spítala í Ramallah.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, hefur fordæmt morðið og sagt það villimannlegt. Hann lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg og sagði að gripið yrði til ótilgreindra aðgerða vegna dauða Abu Ein.

Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur kallað eftir því að fram fari rannsókn á atvikinu og biður deiluaðila um að reyna að koma í veg fyrir átök í kjölfar þessa.

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Abu Ein lenti saman við Ísraela en árið 1979 hlaut hann dauðadóm fyrir þátt í sprengingu sem grandaði tveimur unglingum. Honum var sleppt árið 1985 í skiptum fyrir ísraelska fanga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×