Innlent

Þriggja mánaða barn um borð: Tilfinningin ólýsanleg

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Hér er skipið við björgunaraðgerðir.
Hér er skipið við björgunaraðgerðir. Mynd/Landhelgisgæslan
„Tilfinningin að standa frammi fyrir svona verkefni er alveg ótrúleg og eiginlega ólýsanleg,“ segir Einar Valsson, skipherra á varðskipinu Tý.

Á þriðjudag bjargaði áhöfn varðskipsins 408 flóttamönnum frá Sýrlandi af flutningaskipi sem statt var 165 sjómílur austur af Möltu. Neyðarboð bárust frá skipinu snemma um morguninn og var með aðstoð eftirlitsflugvéla mögulegt að staðsetja skipið. Var þá óskað eftir aðstoð Týs sem var skammt frá og kom varðskipið á staðinn um klukkan ellefu. Þetta er í annað sinn á viku sem áhöfnin bjargar stórum hópi flóttafólks en í fyrra skiptið var 390 manns bjargað af öðru flutningaskipi.

Týr hefur verið að vinna undir merkjum Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins. Átján manns eru í áhöfn Týs en þeir hafa farið nokkrum sinnum út frá árinu 2010 til þess að sinna verkefnum fyrir stofnunina en aldrei lent í jafn stórri björgunaraðgerð og nú.

Einar segir fólkið hafa verið við erfiðar aðstæður í skipinu. „Þetta fólk var búið að vera á ferðalagi marga daga á sjó. Þarna var fólk alveg frá 3 mánaða barni og upp úr í aldri sem er að ferðast við mjög erfiðar og ómannúðlegar aðstæður,“ segir hann.

Einar Valsson.Mynd/Vefur Landhelgisgæslunnar
Ferjun fólksins tók átta klukkustundir

Þar sem engin áhöfn var til staðar á flutningaskipinu tóku varðskipsmenn yfir stjórn skipsins og settu stefnuna til lands ásamt Tý auk þess sem hlúð var að flóttafólkinu. Skömmu síðar stöðvaðist vél skipsins og var þá í samráði við ítölsk yfirvöld tekin ákvörðun um að flytja fólkið yfir í Tý og spænskt rannsóknarskip og þaðan til hafnar á Ítalíu. Um átta klukkustundir tók að ferja fólkið yfir í varðskipið og rannsóknarskipið með hraðbátum varðskipsins. 194 fóru yfir í spænska skipið og 214 í Tý.

„Þetta er klárlega einn minnisstæðasti atburðurinn sem maður hefur lent í, í þessum verkefnum. Þetta er svo stórt og mikið og manni blöskrar að sjá allt þetta fólk á svona skipi þegar maður kemur að þessu,“ segir hann.

„Þetta er 65 metra langt flutningaskip og megnið af fólkinu er undir þiljum og dvelst þá í lest skipsins og er þar bara í einum haug. Svo voru nú ekki alveg ákjósanlegustu aðstæður til að vera að standa í þessum flutningum á fólki sem er orðið þrekað af sjóveiki og næringarskorti,“ segir Einar.

Blendnar tilfinningar

Hann segist hafa skynjað mikinn feginleika og þakklæti frá fólkinu yfir að hafa komist úr skipinu. Fólkið komst til hafnar í gær og fór þá í læknisskoðun á Ítalíu og væntanlega í flóttamannabúðir í framhaldinu.

Einar segir blendnar tilfinningar fylgja starfinu.

„Maður er afskaplega glaður að geta veitt þessa hjálp. Þetta er fyrst og fremst lífsbjargandi vinna sem við erum að sinna hérna. Það gefur okkur heilmikið og heldur okkur kannski andlega á floti í þessum erfiðu aðstæðum,“ segir hann.

Týr verður áfram á svæðinu við björgunaraðgerðir út janúar og verður því áhöfnin stödd þar yfir jólin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×