Veriði velkomin til Mars
Ímyndið ykkur harðbýlasta svæði jarðar, svæðið í kringum Tsjernobyl til dæmis. Margfaldið þetta með þúsund og þið eruð komin á Mars. Tíu ár eru síðan könnunarförin Spirit og Opportunity héldu til plánetunnar. Í áratug hafa bræðurnir ekið samanlagt 40 kílómetra og rýnt í rauðbrúnu auðnina sem þekur Mars, staðist ískaldar nætur og hrikalega sandstorma.

Spurningin er því þessi: hver er reiðubúinn að taka áhættuna og halda til rauðu plánetunnar og aldrei snúa aftur í fagra hlíð? Svo vill til að 200.000 manns hafa þegar tekið afstöðu og svarið er ákaft já.
Big Brother í geimnum
Mars One er eitt af örfáum verkefnum sem hefur tekið skrefið úr hugartilraun yfir í áætlun. Árið 2024 hyggst Mars One, sem ekki er rekið í ágóðaskyni, senda fjóra einstaklinga frá jafnmörgum heimsálfum til Mars. Tveir karlar, tvær konur. Þessir hugrökku og/eða sturluðu einstaklingar verða nýlendurherrar Mars. Þau munu aldrei snúa aftur til jarðar heldur verða þau greftruð í ryðrauðri jarðvegsþekju plánetunnar.
Takist Mars One ætlunarverk sitt mun heimsbyggðin syrgja þessa einstaklinga þegar sú stund rennur upp. Hvert einasta mannsbarn mun þekkja þau enda verða þau ekki aðeins fyrstu einstaklingarnir á Mars heldur raunveruleikastjörnur af áður óþekktri stærðargráðu. Mars One verður nefnilega fjármagnað með sjónvarpstekjum.
Verkefnið er hugarfóstur hollenska frumkvöðulsins Bas Lansdorp. Hann efnaðist mjög á stuttri veru sinni í orkugeiranum. Draumur hans er að stofna fyrstu nýlenduna á Mars. Öfugt á við aðra stórhuga athafnamenn hefur Lansdorp aldrei einblínt á tæknilega annmarka verkefnisins (þeir eru margir) heldur hefur hann lagt áherslu á viðskiptamódelið.
Kynningarmyndband frá Mars One:
Kostnaður við verkefnið nemur tugum milljarða evra, stór biti fyrir hinn þó sterkefnaða Lansdorp. Hugljómunin kom þegar Lansdorp rýndi í tekjur af sjónvarpsútsendingum vegna Sumarólympíuleikanna í Lundúnum. Með því að þróa raunveruleikaþátt um Mars One og umsækjendurna og senda út upplifun þeirra, a la Big Brother, væri hægt að tryggja stöðugar tekjur upp á 6 til 7 milljarða dollara. Til þess að þetta gangi upp verður þessi sjónvarpsþáttur auðvitað að verða vinsælasta afþreyingarefni veraldar.
Að lifa og deyja á Mars
Umsóknir bárust frá rúmlega tvö hundruð þúsund manns. Sem stendur koma eitt þúsund umsækjendur til greina. Heimsbyggðin mun á endanum skera úr um hverjir fara til Mars.
Hópur umsækjenda er fjölbreyttur. Aðallega karlar og konur á þrítugsaldri, flest með brennandi áhuga á vísindum og vísindaskáldskap. Einnig er að finna eldra fólk í hópnum, mörg hver gift, sum fráskilin.

Við fyrstu sýn virðast tæknilegar útfærslur Mars One vera traustar, að minnsta kosti áhugaverðar. Könnunarför munu fara nokkrar ferðir til Mars á undan ferðalöngunum og setja saman grunninn að búsvæði þeirra. Við komu munu Marsfararnir koma sér fyrir í 50 fermetra einstaklingsherbergjum. Saman deila þeirra 200 fermetra rými - félagsmiðstöð í raun og veru. Grunnurinn að vel heppnaðri dvöl á Mars er ræktun jurta og grænmetis. Geimfararnir munu rækta grænmeti og korn til næringar og um leið súrefni til öndunar.
Ítarlegar útfærslur af þessum hugmyndum eru til staðar og opnar öllum. Skipuleggjendur Mars One fullyrða að hægt sé að ná þessum markmiðum með tækni sem er til staðar í dag. Það er rangt.
Hópur útskriftarnema við MIT háskólann í Boston birtu á dögunum ítarlega úttekt á hugmyndum Mars One. Út frá þeim skilyrðum sem þar er að finna komust nemendurnir að því að fyrsta dauðsfallið á Mars myndi eiga sér stað 68 dögum eftir komu til plánetunnar.
Vandamálið snýr að gróðurhúsinu. Hætta er á að súrefni safnist saman í miklu magni með tilheyrandi sprengihættu. Í þokkabót er ómögulegt að losa súrefni án þess að losa nitur (köfnunarefni) um leið.
Það er því tvennt í stöðunni. Annars vegar að þróa tækni til að aðskilja súrefni og nitur og hinsvegar að slá hugmyndir um umfangsmikla matvælaframleiðslu út af borðinu og senda þess í stað vistir og nauðsynjar til nýlendunnar á nokkurra ára fresti. Báðar lausnir eru dýrar. Svo dýrar í raun að þær kollvarpa hugmyndum Lansdorp og félaga.

„Við erum byrjuð á að tryggja fjármögnun, draumur okkar hefur grundvöll í veruleikanum,“ segir Lansdorp á vefsvæði sínu. „Stuðningur fjárfesta og styrktaraðila er nauðsynlegur og það að sjá verkefnið okkar þróast í þessa átt er draumi líkast.“
Mars One hefur tekið höndum saman við þá sem þróuðu Big Brother raunveruleikaþáttinn. Jafnframt hafa nokkur hollensk nýsköpunarfyrirtækið lofað fjármagni.
Vísindasamfélagið hefur aftur á móti ekki tekið vel í verkefnið. Nokkrir vísindamenn hjá NASA fullyrða að ómögulegt sé fyrir einkarekið fyrirtæki að standa í mönnuðum ferðum til Mars. Aðrir benda á sjálf vísindavinna Mars One sé hálfkláruð, jafnvel fjarstæðukennd.
Yfirgnæfandi líkur eru á að áhyggjur vísindasamfélagsins reynist réttar en það sem skiptir máli í öllu þessu er sjálf hugmyndin. Sjálf niðurstaðan er algjört aukaatriði, það er umræðan sem skiptir máli. Skyndilega eru allir að tala um Mars á ný og þessi umræða fylgir í kjölfarið á róttækum og síendurteknum niðurskurði til NASA og vísindastofnana vítt og breytt um heiminn.
Vísindasagan sýnir okkur að klikkaðar hugmyndir eru bráðnauðsynlegar. Óhjákvæmileg en því miður sjaldgæf stökkbreyting í viðhorfi sem kallar á grundvallar breytingar á samfélagi okkar og lifnaðarháttum.
„Við erum ekki að fara til Mars til deyja. Við erum að fara þangað til að lifa,“ segir Lansdorp.