Erlent

Óljóst hvernig Kanar og Kínverjar ætla að ná markmiðum um minni losun

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Leiðtogar skála Barack Obama og Xi Jinping skáluðu í fyrrakvöld að loknum kvöldverði leiðtoga Asíu- og Kyrrahafsríkja í Peking.
Leiðtogar skála Barack Obama og Xi Jinping skáluðu í fyrrakvöld að loknum kvöldverði leiðtoga Asíu- og Kyrrahafsríkja í Peking. Vísir/AP
Samkomulag Kína og Bandaríkjanna í gær um að takmarka útblástur gróðurhúsalofttegunda þykir marka viss tímamót, bæði í baráttunni við loftslagsbreytingar og í samskiptum Kína og Bandaríkjanna. Enn er þó óljóst með öllu hvernig ríkin tvö ætla að fara að því að ná þeim markmiðum, sem að er stefnt.

Bandaríkin hafa lýst því yfir að þau ætli að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um ríflega fjórðung til ársins 2025, og er þá miðað við árið 2005. Kínverjar hafa síðan heitið því að árið 2030, eða fyrr, muni útblástur þeirra ná hámarki. Eftir það verði byrjað að draga úr honum.

Efnahagsumsvif Kínverja hafa aukist hratt á síðustu árum og áratugum. Mest þó frá síðustu aldamótum. Þessu hefur fylgt síaukinn útblástur gróðurhúsalofttegunda og nú er svo komið að Kína ber ábyrgð á nærri þriðjungi alls koltvísýringsútblásturs jarðarbúa.

Bandaríkin og Evrópusambandið koma næst á eftir, og samanlagt kemur rúmlega helmingurinn af útblæstri koltvísýrings frá þessum þremur risum alþjóðasamfélagsins svonefnda. Þar á eftir koma Indland, Rússland og Japan.

Á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur áratugum saman verið reynt að fá ríki heims til þess að draga úr útblæstri til þess að hægja á loftslagsbreytingum áður en í óefni er komið.

Ekki síst hefur staðið á ágreiningi milli auðugra Vesturlanda annars vegar og fátækari þróunarríkja hins vegar, þar sem þróunarríkin hafa ekki viljað draga verulega úr útblæstri nema auðugri ríkin taki þátt í kostnaði við það.

Með samningnum við Bandaríkin, þótt óljós sé um margt, hefur Kína í fyrsta sinn fallist á raunveruleg markmið í þessari baráttu.

Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hrósar Kínverjum í hástert og segir þennan samning marka tímamót. Og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvetur öll ríki heims til að feta nú í fótspor Kína og Bandaríkjanna og kynna markmið sín í loftslagsmálum strax upp úr áramótum.

„Þetta markar mikilvæg tímamót í samskiptum Kína og Bandaríkjanna,“ segir Barack Obama Bandaríkjaforseti. „Þetta sýnir hvað er mögulegt þegar við vinnum saman að brýnum heimsmálum.“


Tengdar fréttir

Bandaríkin og Kína sammælast um að draga úr mengun

Bandaríkin og Kína hafa kynnt ný sameiginleg markmið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en forsetar landanna hittust í nótt á fundi í Beijing. Barack Obama Bandaríkjaforseti kallaði nýja samninginn sögulegan en Bandaríkjamenn ætla að ná því markmiði að árið 2025 verði búið að draga úr losuninni svo nemur 28 prósentum af því sem var árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×