Erlent

Fyrsta skrefið í áttina að betri samskiptum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, og Xi Jinping, forseti Kína, ásamt eiginkonum sínum í Peking í gær.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, og Xi Jinping, forseti Kína, ásamt eiginkonum sínum í Peking í gær. nordicphotos/AFP
Fyrsta handtakið mun hafa verið hálfvandræðalegt. Þeir Xi Jingping Kínaforseti og Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, voru að minnsta kosti harla fálátir þegar þeir hittust í Peking í gær.

Vaxandi fjandskapur hefur verið á milli ríkjanna undanfarið. Japönum finnst Kínverjar hafa verið afar yfirgangssamir, en á móti finnst Kínverjum forsætisráðherra Japans sýna óþægilega mikla þjóðrembu.

Þeir notuðu samt tækifærið til að bæta samskiptin í gær, þegar leiðtogafundur Efnahagssamvinnusamtaka Asíu- og Kyrrahafsríkja (APEC) var haldinn í Peking í boði kínversku stjórnarinnar.

Þeir héldu síðan afsíðis og ræddu tveir saman í hálftíma. Kínverska ríkisfréttastofan Xinhua segir að Xi hafi hvatt Abe til þess að „gera meira til þess að efla gagnkvæmt traust milli Japans og nágrannaríkja þess.“

Abe sagði hins vegar, að fundinum loknum, að bæði nágrannaríki Japans og Kína og fjölmörg önnur ríki hefðu lengi beðið eftir því að leiðtogarnir hittust til að ræða málin: „Við urðum loksins við þessu og stigum fyrsta skrefið í áttina að því að bæta samskipti okkar.“

Óvenjulegt þótti að Xi skyldi láta Abe bíða eftir sér, því vaninn er að hann taki á móti þeim sem koma að hitta hann. Utanríkisráðuneyti Kína tók auk þess fram að fundurinn hefði verið haldinn að ósk Abes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×