Innlent

Íhuga að kæra Framsókn

Sveinn Arnarsson skrifar
Ríkisendurskoðun.
Ríkisendurskoðun.
Ríkisendurskoðun íhugar að kæra Framsóknarflokkinn til lögreglu vegna brota á lögum um fjármál stjórnmálaflokka þegar flokkurinn tók við tveimur styrkjum yfir löglegri upphæð. Þetta staðfestir Lárus Ögmundsson, lögfræðingur Ríkisendurskoðunar.

Fram kemur í ársreikningi Framsóknarflokksins að flokkurinn tók við tveimur styrkjum yfir hámarksupphæð, sem er 400 þúsund krónur. Einhamar Seafood styrkti flokkinn um 462.750 krónur og Skinney Þinganes styrkti flokkinn um 440 þúsund krónur. „Við erum að fara yfir málið í rólegheitum, það er stutt síðan þetta kom upp og við erum að velta því fyrir okkur hvort við eigum að fara með málið til lögreglu,“ segir Lárus.

Ríkisendurskoðun benti Framsóknarflokknum á að þessir styrkir væru yfir löglegri upphæð. Framsóknarflokkurinn brást fljótt við ábendingum Ríkisendurskoðunar og hefur nú þegar greitt til baka rúmar 100 þúsund krónur samtals til þessara tveggja fyrirtækja.

Í lögum um fjármál stjórnmálaflokka segir í 12. grein að hver sá sem veiti viðtöku styrkjum, sem honum sé óheimilt að taka við skuli sæta sektum og gera skuli lögaðilum sekt fyrir broti sem þessu. Einnig segir að refsa skuli fyrir brot hvort sem þau séu framin af ásetningi eða gáleysi.

Lárus gat ekki svarað því hvenær Ríkisendurskoðun tæki afstöðu til þess hvort yrði kært eða ekki. „Við erum með þetta á okkar borðum, nú er svo komið að ríkisendurskoðandi er í viku fríi og við munum líklega skoða þetta betur í næstu viku,“ segir Lárus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×