Innlent

Stefnu vantar vegna mengunar af völdum ferðamanna

ingvar haraldsson skrifar
Viðar Jökull segir ferðaþjónustuna þurfa að huga meira að mengun af völdum ferðamanna.
Viðar Jökull segir ferðaþjónustuna þurfa að huga meira að mengun af völdum ferðamanna. vísir/vilhelm
Stefnu vantar á sviði mengunar af völdum ferðamanna að sögn Viðars Jökuls Björnssonar, umhverfis- og auðlindafræðings.

„Það er alltaf litið til tveggja þátta, hversu miklu ferðamenn skila í þjóðarbúið og hve margir þeir eru en í mörgum tilfellum gleymast umhverfisþættirnir,“ segir Viðar Jökull sem nýlega lauk meistararitgerð í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands þar sem hann mat kolefnisspor ferðamanna á Íslandi árið 2011.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu þyrftu einnig að gera meira í þessum efnum. „Ferðaþjónustan gerir út á að spila Ísland sem þetta hreina og tæra land. Þá þarf hún að standa við það,“ segir Viðar Jökull og bætir við: „Langflestir eru ekkert að spá í þessu. Það olli mér svolitlum vonbrigðum.“

Meðalferðamaðurinn eyðir 50,2 kílóum af koltvísýringi á dag. Það er heldur minna en sambærileg rannsókn sem gerð var á hollenskum ferðamönnum sem eyddu um að meðaltali 62 kílóum af koltvísýringi á dag.

Í heild áætlar Viðar Jökull að mengun af völdum ferðamanna sé á milli 0,5 og 2,8 prósenta af heildarútblæstri koltvísýrings á Íslandi. Sú tala mun þó fara hækkandi á næstu árum með auknum fjölda ferðamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×