Innlent

Hundruð milljóna í Sundlaug Akureyrar

Sveinn Arnarsson skrifar
Sundlaugin mun fá andlitslyftingu á næstu árum.
Sundlaugin mun fá andlitslyftingu á næstu árum.
Sundlaugarsvæðið á Akureyri mun taka stakkaskiptum nái hugmyndir framkvæmdaráðs Akureyrar fram að ganga. Fyrirhugað er að fjölga heitum laugum, laga allt yfirborð sundlaugarsvæðisins og fjárfesta í nýrri rennibraut fyrir sundlaugargesti. Framkvæmdum við svæðið mun ekki ljúka fyrr en á árinu 2017.

Gerður hefur verið samningur við fyrirtækið Altis um kaup á rennibraut. Akureyrarbær er nú í samningaviðræðum við fyrirtækið um að fresta þeim kaupum. Að sögn Dags Fannars Dagssonar, formanns framkvæmdaráðs Akureyrarkaupstaðar, er það stefnan að hefjast fyrst handa við að laga svæðið áður en rennibraut verður sett þar upp.

„Við höfum falið Eiríki Birni Björgvinssyni bæjarstjóra að semja við Altis um frestun samningsins. Það er okkar mat að meiri þörf sé á því í augnablikinu að gera endurbætur á sundlaugarsvæðinu, bæta við heitum pottum og stækka aðeins sundlaugarsvæðið sjálft til vesturs. Þannig myndum við fresta uppsetningu rennibrautar. Þetta er allt gert til þess að gera endurbætur á sundlaugarsvæðinu öllu. Svæðið þarfnast viðhalds og teljum við þetta vera farsælustu lausnina á þeim málum,“ segir Dagur Fannar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×