Innlent

Samstaða um nauðsyn fimm stjörnu vegakerfis

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir samsinnti þingmanninum Vilhjálmi Árnasyni varðandi umferðaröryggi.
Hanna Birna Kristjánsdóttir samsinnti þingmanninum Vilhjálmi Árnasyni varðandi umferðaröryggi.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, gagnrýndi á Alþingi í gær að umhverfissjónarmið væru látin vega hærra en sjónarmið varðandi umferðaröryggi. Nefndi hann nýlegt banaslys í umferðinni sem hann rekur til þessarar forgangsröðunar.

Vilhjálmur benti á mikilvægi þess að vera með „5 stjörnu vegakerfi“. Sér í lagi í ljósi þess að útreikningar þeir sem hann er með undir höndum benda til þess að kostnaður vegna banaslysa í umferðinni á síðasta ári, auk kostnaður við þá sem hljóta af umferðarslysum bæði alvarlega og minniháttar áverka, hafi verið um 40 til 50 milljarðar króna fyrir ríkið.

Vilhjálmur vill færa umferðareftirlitið alfarið til lögreglu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra svaraði þingmanninum svo að vel gæti farið á því að fyrrnefnd starfsemi yrði færð undir lögreglu. Það hefði verið rætt áður og vilji væri fyrir því að ganga til þess verks.

Innanríkisráðherra sagði, hvað varðar það 5-stjörnu-vegakerfi sem Vilhjálmur nefndi að hafa yrði í huga að vegakerfið á Íslandi spannar 13 þúsund kílómetra í heildina og að þessu kerfi hefði ekki tekist að halda nægilega vel við.

„Staðreyndin er sú að á undanförnum árum hefur okkur ekki tekist nægilega vel að viðhalda þessu kerfi og tryggja fullt öryggi á þeim vegum. Það er eitthvað sem við verðum að horfast í augu við,“ sagði Hanna Birna ómyrk í máli í umræðum á þingi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×