Erlent

Aldrei jafn mikil neyð jafn víða í heiminum

Ingvar Haraldsson skrifar
Heilbrigðisyfirvöld í Líberíu ráða lítið við útbreiðslu ebólu.
Heilbrigðisyfirvöld í Líberíu ráða lítið við útbreiðslu ebólu. fréttablaðið/ap
Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO) segist aldrei hafa þurft að kljást við neyðarástand á jafn mörgum svæðum í heiminum og nú. Stofnunin er nú að kljást við þriðja stigs neyðarástand á fimm svæðum í Mið-Austurlöndum og Afríku.

Fyrir tveimur árum gaf stofnunin út að með góðu móti væri hægt að ráða við þriðja stigs neyðarástand, á tveimur stöðum í einu. Undir þennan flokk falla þau mál þar sem neyðin er mest. „Staðan er fordæmalaus, ekki bara fyrir WHO heldur alla þá sem vinna að mannúðarmálum.“ segir Dr. Bruce Aylward, aðstoðarframkvæmdastjóri WHO.

Einna verst er ástandið í Vestur-Afríku en samkvæmt mati stofnunarinnar gætu tuttugu þúsund hafa smitast af ebólu í nóvember. Þrefalt fleiri en þeir sex þúsund sem þegar hafa smitast en helmingur þeirra er látinn.

Í Sýrlandi og Írak hafa ellefu milljónir þurft að flýja heimili sín. Vegna stríðsástands og smitsjúkdóma þurfa tæplega sex milljónir á mannúðaraðstoð að halda í Suður-Súdan og um 2,5 milljónir í Mið-Afríkulýðveldinu.

Heilbrigðisyfirvöld í ríkjunum eiga í miklum erfiðleikum með að sinna öllum sem eiga um sárt að binda og er heilbrigðisþjónusta víða að hruni kominn. Því hefur WHO þurft að taka að sér sífellt stærra hlutverk sem stofnunin á nú í mest vandræðum með að sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×