Erlent

Stephen King meðal rithöfunda sem er ósáttir við Amazon

ingvar haraldsson skrifar
Stephen King er einn þeirra rithöfunda sem ritað hafa nafn sitt á mótmælabréfið.
Stephen King er einn þeirra rithöfunda sem ritað hafa nafn sitt á mótmælabréfið. mynd/filmmagic
Ríflega níu hundruð rithöfundar hafa ritað netrisanum Amazon bréf sem birtast mun á síðum New York Times á sunnudag. Þar kvarta höfundarnir yfir framferði Amazon gagnvart bókaútgáfunni Hachette, sem rithöfundarnir eru á mála hjá.

Á meðal rithöfunda sem Hachette hafa gefið út bækur frá eru J.K. Rowling, Stephen King og Stephenie Meyer.

Fyrirtækin hafa deilt undanfarna mánuði vegna skilmála á rafbókum sem seldar eru á vefsíðu Amazon. Starfsmenn Amazon hafa meðal annars látið seinka sendingum og stöðvað forsölu bóka frá Hachette samkvæmt frétt BBC um málið.

Rithöfundarnir telja Amazon með þessu reyna að þrýsta á Hachette að selja rafbækur á lægra verði.

„Mörg okkar hafa stutt Amazon síðan það var lítið frumkvöðlafyrirtæki,“ rita rithöfundarnir sem bæta við að þeir hafi skapað Amazon miklar tekjur í gegnum árin.

Amazon segir hins vegar Hachette rukka okurverð fyrir rafbækur. Í nýlegri tilkynningu frá fyrirtækinu segir netrisinn að rafbækur ættu að vera seldar á helmingi lægra verði. Mun ódýrara sé að gefa út rafbækur en hefðbundnar bækur.

Amazon fullyrðir einnig að lægra verð rafbóka myndi auka sölu þeirra sem skapi meiri tekjur fyrir alla aðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×