Innlent

Framsókn í Reykjanesbæ ekki með fulltrúa

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Þrír flokkar Meirihlutann í bænum mynda flokkarnir Bein leið, Frjálst afl og Samfylkingin.
Þrír flokkar Meirihlutann í bænum mynda flokkarnir Bein leið, Frjálst afl og Samfylkingin. Fréttablaðið/GVA
Kristinn Þór Jakobsson, fulltrúi Framsóknar í bæjarráði Reykjanesbæjar, lagði fram þá tillögu á fundi bæjarráðs að Framsókn fengi launaða áheyrnarfulltrúa í nefndum á vegum bæjarins. Framsókn fékk 1 fulltrúa kjörinn í nýafstöðnum kosningum en meirihluta í bænum mynda þrír flokkar; Bein leið, Frjálst afl og Samfylking. 

Tillögunni var hafnað og einnig þeirri tillögu að Framsókn fengi að hafa ólaunaða fulltrúa í nefndum. „Þar sem fullnaðarafgreiðsla mála fer fram í bæjarstjórn Reykjanesbæjar en ekki í nefndum er ekki talið rétt að fjölga fulltrúum með tilheyrandi kostnaði,“ segir í fundargerð bæjarins frá 3. júlí síðastliðnum.

„Nú kýs nýr meirihluti að ganga á bak kosningaloforða framboðanna sem hann mynda, um aukið íbúalýðræði, opnari og gagnsærri stjórnsýslu og aukin áhrif íbúa á nærumhverfi sitt,“ bókaði Kristinn í kjölfarið. Hann gagnrýnir meirihlutann harðlega og segir það í samræmi við gegnsæi og aukið lýðræði að veita Framsókn fulltrúa í nefndum. Í stefnuskrá meirihlutans er því lofað að þessi atriði séu í hávegum höfð, nú segir Kristinn meirihlutann ganga þvert á sína eigin stefnu.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×