Innlent

Erfitt að koma aftur á sitt gamla heimili

Ingvar Haraldsson skrifar
Gerður stendur yfir ofan gamla húsið sitt að Gerðisbraut 10 sem núna er orðið hluti af safninu Eldheimum sem opnar á föstudag.
Gerður stendur yfir ofan gamla húsið sitt að Gerðisbraut 10 sem núna er orðið hluti af safninu Eldheimum sem opnar á föstudag. Vísir/Óskar Friðriksson
„Það var tilfinningaþrungin stund að koma þangað aftur, 38 árum síðar. Þetta var húsið sem við hjónin vorum búin að byggja og leggja alla okkar peninga í og við þurftum að yfirgefa svo skyndilega. Við áttum ekki krónu eftir eldgosið. En þetta eru dauðir hlutir og það var hægt að eignast þetta allt aftur.“ segir Gerður Sigríðardóttir, fyrrverandi íbúi á Gerðisbraut 10, sem verður miðpunktur safnsins Eldheima.

Opnunarvígsla safnsins verður í Vestmannaeyjum á föstudaginn. Safnið er byggt yfir Gerðisbraut 10 sem grófst undir þykku öskulagi í eldgosinu.

Gerður Sigurðardóttir bjó á Gerðisbraut 10 ásamt Guðna Ólafssyni skipstjóra og þremur ungum börnum þegar gosið hófst aðfaranótt 23. janúar 1973.

Hún segist hafa fundið snarpan jarðskjálfta kvöldið áður en gosið hófst. „Það voru miklar drunur og læti, líkt og stór vörubíll væri að keyra fram hjá. Ég vissi það ekki fyrr en síðar að þarna var kvikan að leita sér að útgönguleið og hefði allt eins getað komið upp í gegnum stofugólfið.“

Gerður í húsinu.Vísir/Óskar Friðriksson
Hún segist hafa orðið vitni að því þegar jörðin sprakk og eldsúlurnar gusu upp en húsið er fjögur hundruð metrum frá upptökum eldgosins. „Þetta var náttúran í sinni mögnuðustu mynd, bæði flott og ógnvekjandi.“ Fjölskyldan þurfti að yfirgefa húsið á náttfötunum eftir að gosið hófst.

Í kjölfar eldgossins flutti fjölskyldan upp á land í tvö ár, þangað til Ólafur Helgason, þáverandi bankastjóri Útvegsbankans, styrkti fjölskylduna og fleiri útgerðarmenn til enduruppbyggingar Vestmanneyja í von um að koma útgerð aftur af stað í bænum.

Gerður segir safnið mikilvægt framtak því eldgosið sé að gleymast hjá yngri kynslóðum.

Hún segir húsið mjög reisulegt og rúmi ýmsa starfsemi.

„Þarna verður sýning um eldgosið auk fundarsala, sýningarsals fyrir listasýningar og mögulega kaffihús í framtíðinni.“

Eftir opnunarvígsluna á föstudaginn verður safnið opið almenningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×