Innlent

Fella varð niður flug til og frá Denver í gær: Flugmenn vilja ekki vinna yfirvinnu

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Flugmenn hjá Icelandair eru reiðir yfir lögum sem Alþingi setti og banna tímbundið verkfallsaðgerðir þeirra. Þeir hafna yfirvinnu þessa dagana. Fréttablaðið/GVA
Flugmenn hjá Icelandair eru reiðir yfir lögum sem Alþingi setti og banna tímbundið verkfallsaðgerðir þeirra. Þeir hafna yfirvinnu þessa dagana. Fréttablaðið/GVA
„Menn vilja ekki vinna yfirvinnu. Það er það eina sem mér dettur í hug. Menn eru ekki glaðir með þessi lög,“ segir Hafsteinn Pálsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Alþingi setti lög í fyrradag sem banna tímabundið allar verkfallsaðgerðir flugmanna.

Flugmenn eru reiðir yfir lögunum. Þeir telja að brotið hafi verið á stjórnarskrárbundnum réttindum þeirra.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir að hverjum og einum sé það í sjálfsvald sett hvort hann vinni yfirvinnu eða ekki.

Hann segir að hingað til hafi það ekki verið vandamál að manna þó einhver forfallist. „Við hljótum hins vegar að skoða málin upp á nýtt ef flugmenn vilja ekki vinna yfirvinnu,“ segir Björgólfur.

Icelandair felldi í gær niður flug til Denver í Bandaríkjunum og flug frá Denver til Íslands fellur niður í dag. Icelandair segir að skortur á flugmönnum og flugstjórum hafi valdið því að fella varð flugið niður. Þá varð seinkun á flugi til og frá Glasgow í Skotlandi í gær og var vélaskortur talinn valda því.

Samninganefndir flugmanna og Samtaka atvinnulífsins sem fara með samningsumboðið fyrir Icelandair hafa ekki verið boðaðar til fundar.

Samkvæmt lögum sem banna verkfallsaðgerðir flugmanna hafa þeir frest til 1. júní til að ná samningum við Icelandair. Takist það ekki fer málið í gerðardóm sem á að fella úrskurð fyrir 1. júlí.


Tengdar fréttir

Fullkomið verkfall

Tvær af hverjum þremur farþegaflugvélum sem fara frá Keflavík á degi hverjum tilheyra einu flugfélagi, Icelandair. Það er auðvitað mjög gott frá sjónarhorni þess flugfélags. Raunar hefur þetta hlutfall örugglega oft verið hærra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×