Erlent

Yfir þrjátíu milljónir manna á vergangi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Flóttafólk í Sýrlandi Hvergi hefur fleira fólk hrakist að heiman en í Sýrlandi.
Flóttafólk í Sýrlandi Hvergi hefur fleira fólk hrakist að heiman en í Sýrlandi. Vísir/AFP
Á síðasta ári voru 33,3 milljónir manna á flótta innan landamæra heimalands síns í heiminum öllum. Fólki á vergangi hafði fjölgað um 4,5 milljónir frá árinu áður, og munar þar mest um ástandið í Sýrlandi.

Að meðaltali hrekst ein fjölskylda heiman frá sér í Sýrlandi á hverri einustu mínútu. Þetta kemur fram í yfirliti frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Norska flóttamannaráðinu.

Á síðasta ári hröktust 8,2 milljónir manna að heiman vegna ofbeldis og átaka, þar af 3,5 milljónir í Sýrlandi einu.

„Þetta er fólk sem býr við algjört neyðarástand,“ sagði Jan Egeland, framkvæmdastjóri Norska flóttamannaráðsins, á blaðamannafundi í Genf í gær.

Hann segir að fjöldi þeirra sem eru á vergangi innan eigin landamæra sé orðinn meiri en sést hefur frá tímum þjóðarmorðanna í Rúanda og Bosníu á síðasta áratug síðustu aldar, en þá náði fjöldinn hámarki í 28 milljónum.

Fram kom í tölum stofnananna að 63 prósent allra þeirra sem eru á vergangi innan eigin landamæra séu í fimm löndum: 6,5 milljónir í Sýrlandi, 5,7 milljónir í Kólumbíu, 3,3 milljónir í Nígeríu, 2,9 milljónir í Austur-Kongó og 2,4 milljónir í Súdan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×