Erlent

Mikil reiði og sorg vegna námuslyss

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Tyrkneskir námuverkamenn syrgja félaga sína sem fórust þegar sprenging varð í kolanámu.
Tyrkneskir námuverkamenn syrgja félaga sína sem fórust þegar sprenging varð í kolanámu. Vísir/AP
Nærri 450 námuverkamenn höfðu í gær fundist á lífi eftir mikla sprengingu sem varð í kolanámu í borginni Soma í vestanverðu Tyrklandi á þriðjudag.

Nærri 250 lík höfðu fundist og óttast var að um hundrað í viðbót hefðu látið lífið.

Hundruð manna, bæði ættingjar þeirra sem fórust og námuverkamenn sem komust lífs af, söfnuðust saman í Soma í gær og beindist reiði þeirra að Recep Tayyip Erdogan forsætisráðherra og ríkisstjórn hans.

Sumir hrópuðu að Erdogan væri morðingi og þjófur. Grjóti var kastað í lögregluna og einhverjir voru handteknir.

Í Istanbúl var einnig efnt til mótmæla fyrir utan fyrirtækið sem rekur námuna. Þá safnaðist fólk einnig saman í höfuðborginni Ankara, en lögreglan greip þar inn í og rak fólkið burt.

Nærri átta hundruð manns voru að vinna í námunni þegar sprengingin varð á þriðjudag. Þetta er versta námuslys í Tyrklandi frá árinu 1992 þegar sprenging varð í námu skammt frá hafnarborginni Zonguldak við Svartahafið, með þeim afleiðingum að 263 námuverkamenn létust.

Tyrknesk stjórnvöld sögðu að síðast í mars á þessu ári hefðu yfirvöld farið yfir öryggismál í námunni. Ekkert hefði fundist sem ábótavant teldist.

Erdogan forsætisráðherra lýsti í gær yfir þriggja daga þjóðarsorg. Hann frestaði jafnframt utanlandsför en hélt í staðinn til Soma að skoða vettvanginn og ræða við námuverkamenn og aðstandendur þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×