Erlent

Fá ríki í heiminum lífláta fólk

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Teknir af lífi Íran kemur næst á eftir Kína hvað varðar fjölda dauðarefsinga.
Teknir af lífi Íran kemur næst á eftir Kína hvað varðar fjölda dauðarefsinga. Nordicphotos/AFP
Kínverjar eru allra ríkja stórtækastir í dauðarefsingum og aftökum. Á hverju ári eru þúsundir manna teknir þar af lífi, en nákvæm tala er ekki þekkt vegna þess að farið er með hana sem ríkisleyndarmál.

Fyrir utan Kína er vitað til þess að 778 manns hafi verið teknir af lífi á síðasta ári. Raunveruleg tala er líklega nokkru hærri, en víða hefur reynst erfitt að sannreyna tölur um aftökur.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá mannréttindasamtökunum Amnesty International, sem árlega birta yfirlit yfir aftökur í heiminum.

Samkvæmt þessum tölum hefur staðfestum dauðarefsingum fjölgað um fimmtán prósent á milli áranna 2012 og 2013.

Einungis 22 ríki framfylgdu dauðarefsingum á síðasta ári. Fyrir utan Kína eru Íranar, Írakar og Sádi-Arabar stórtækastir á þessu sviði, en Bandaríkin eru fimmta ríkið í hópi þeirra sem taka flesta af lífi.

Alls voru 39 manns teknir af lífi í Bandaríkjunum á síðasta ári, en Bandaríkin eru eina landið á Vesturlöndum sem enn í dag stundar það að taka fólk af lífi.

Á árinu 2013 gerðist það síðan að aftökum í Sómalíu fjölgaði verulega. Þær urðu 34 á árinu, þannig að Sómalía stendur ekki langt að baki Bandaríkjunum í þessum efnum.

Ekki var hægt að fá staðfestingu á því hvort fólk hefði verið tekið af lífi í Egyptalandi eða Sýrlandi á síðasta ári.

Í Egyptalandi voru hins vegar 539 manns dæmdir til dauða á einu bretti í síðustu viku, og var sú dómsuppkvaðning sögð einstök í sögunni, að minnsta kosti á síðari tímum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×