Erlent

Gaddafí rændi og nauðgaði börnum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Gaddafí ásamt einkalífvarðasveit sinni.
Gaddafí ásamt einkalífvarðasveit sinni. nordicphotos/AFP
Múammar Gaddafí, einræðisherra í Líbíu, stundaði það að láta menn sína ræna stúlkum á unglingsaldri, og stundum drengjum, sem hann síðan notaði til að svala fýsnum sínum í eins konar dýflissum, sérstaklega innréttuðum í þessu skyni.

Frá þessu er skýrt í heimildarmynd, sem sýnd verður í breska ríkissjónvarpinu, BBC, í byrjun næstu viku.

Þar er rætt við bæði fórnarlömb einræðisherrans og vitni, sem mörg vildu þó ekki láta nafn síns getið af ótta við hefndaraðgerðir af hálfu fólks, sem enn heldur tryggð við Gaddafí.

Viðmælendur lýstu því að þegar Gaddafí heimsótti skóla, þá hafi hann gjarnan valið fórnarlömb sín og gefið það til kynna með því að klappa á kollinn á þeim. Lífverðir hans hafi síðan farið með viðkomandi í eina af dýflissunum, og stuttu síðar hafi Gaddafí mætt þangað til að nauðga þeim.

Ein af þessum dýflissum er í Trípólí-háskóla, og þar er einnig sér útbúið herbergi með tækjabúnaði kvensjúkdómalækna. Þar hafi verið athugað hvort fórnarlömbin hafi verið smituð af kynsjúkdómum áður en einræðisherrann kom til að níðast á þeim.

Sumar af stúlkunum, sem þannig var rænt, voru teknar í kvenkyns einkalífvarðarsveitir Gaddafís, og þurftu þar árum saman að þjóna fýsnum hans.

Gaddafí var steypt af stóli sumarið 2011 og drepinn af uppreisnarmönnum í október sama ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×