Innlent

Viðbragðsteymið enn ekki fullmannað

Mikil hræðsla hefur gripið um sig eftir að heilbrigðisyfirvöld í Texas fullyrtu í dag að starfsmaður hefði smitast af Ebólu, en það er annað smitið sem upp kemur utan Vestur- Afríku. Ef ebólusmitaður einstaklingur kæmi hingað til lands væri Landspítalinn ekki undir það búinn, þar sem viðbragðsteymi vegna Ebólu er ekki orðið fullmannað.

Viðbrögð alþjóðasamfélagsins duga hvergi nærri til að stemma stigu við útbreiðslu Ebólu og smituðum fjölgar nú hratt. Páll Matthíasson forstjóri Landspítala segir að lokaundirbúningur vegna viðbragðsáætlunar hér á landi sé nú í gangi, og að leit standi yfir af fólki sem er tilbúið að ganga til liðs við viðbragðsteymi vegna Ebólu. Um þrjátíu stöðugidi er að ræða. 

„Ég hef ekki upplýsingar um það núna um hvað sé búið að manna margar stöður. Það var hafist handa við þetta í síðustu viku og mér skilst að það gangi bærilega,“ segir Páll. 

Þannig að ef það kæmi ebólusmitaður einstaklingur hingað í næstu viku værum við ekki undirbúin?

„Ef það kæmi ebólusmitaður sjúklingur hingað í dag þá myndi ég segja að við værum ekki undirbúin. Ég vona þó að ef að það gerðist í næstu viku verði áætlunin orðin þannig að það sé hægt að virkja hana með litlum sem engum fyrirvara,“ segir hann. 

Flest smit hafa orðið í Vestur- Afríkuríkjunum Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne, en flogið hefur verið með smitaða sjúklinga til fimm evrópuríkja og Bandaríkjanna. Í vikunni kom svo upp fyrsta smitið utan Vestur Afríku, þegar hjúkrunarfræðingur smitaðist á sjúkrahúsi í Madríd.  Í dag bárust síðan fréttir af því að heilbrigðisstarfsmaður í Texas hefði smitast af veirunni. Miklar líkur eru því á að fleiri smit komi upp í þeim löndum sem tekið hafa á móti ebólusmituðum einstaklingum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×