Erlent

Vilja kanínu burt úr eyra Mandela

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Styttan er níu metra há og stendur í garði stjórnarráðs Suður-Afríku í höfuðborginni Pretoríu.
Styttan er níu metra há og stendur í garði stjórnarráðs Suður-Afríku í höfuðborginni Pretoríu. vísir/getty
Yfirvöld í Suður-Afríku hafa skipað myndhöggvurum að fjarlægja kanínu úr hægra eyra bronsstyttu sem gerð var af Nelson Mandela, fyrrverandi forseta landsins, á dögunum.

Myndhöggvararnir settu kanínuna í eyra styttunnar til þess að undirstrika það hversu nauman tíma þeir fengu til að ljúka verkinu, en orðið „haas“ merkir bæði kanínu og flýti á afríkönsku.

Kanínan er vel falin inni í hægra eyra styttunnar.vísir/ap
„Okkur finnst þetta óviðeigandi þar sem Nelson Mandela var aldrei með kanínu í eyranu,“ segir Mogomotsi Mogodiri, talsmaður lista- og menningarmálaráðuneytis Suður-Afríku í samtali við BBC. „Við viljum að fólk líti á styttuna sem vonartákn, en ekki eitthvað á borð við kanínu.“

Styttan er níu metra há og var afhjúpuð þann 16. desember, degi eftir að Mandela var borinn til grafar. Hún stendur í garði stjórnarráðs Suður-Afríku í höfuðborginni Pretoríu.

Mogodiri segir myndhöggvarana hafa beðist afsökunar á uppátækinu og nú eru uppi umræður um hvenær hægt verður að fjarlægja kanínuna. „Yfirvöld vilja hana burt sem fyrst til þess að endurheimta virðuleika styttunnar,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×