Wayne Rooney, Juan Mata og Robin van Persie skoruðu mörk United, en það var David De Gea sem var hetja liðsins í dag. Hann varði oftsinnis frá leikmönnum Liverpool í góðum færum og átti enn einn stórleikinn á tímabilinu.
Liverpool var sterkari aðilinn til að byrja með og Raheem Sterling fékk dauðafæri á 12. mínútu, en De Gea varði vel.
United geystist í kjölfarið í sókn, Antonio Valencia lék á Joe Allen úti á hægri kantinum og sendi boltann út í vítateiginn á Rooney. Fyrirliðanum urðu ekki á nein mistök og hann skoraði framhjá Brad Jones sem stóð í marki Liverpool í dag.
De Gea sá aftur við Sterling á 23. mínútu, en Englendingnum voru mislagðir fætur fyrir framan mark United í dag.
Mata tvöfaldaði svo forystu United á 40. mínútu þegar hann skoraði með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf Ashleys Young frá vinstri. Markið hefði hins vegar aldrei átt að standa því Mata var í rangstöðu þegar hann fékk boltann.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta, en van Persie var nálægt að skora þriðja mark United eftir rúmlega klukkutíma leik, en skot hans í dauðafæri fór framhjá.
Á 67. mínútu kom De Gea heimamönnum enn einu sinni til bjargar þegar hann varði skot varamannsins Mario Balotelli í slána.
Fjórum mínútum síðar gulltryggði van Persie sigur United þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Mata.
Fleiri urðu mörkin ekki, en De Gea varði tvisvar vel frá Balotelli áður en yfir lauk. Magnaður leikur hjá Spánverjanum sem hefur verið besti leikmaður United á tímabilinu.
United er í þriðja sæti með 31 stig, átta stigum á eftir toppliði Chelsea. Liverpool er hins vegar í 9. sæti með 21 stig.