Erlent

Biðjast afsökunar á karlrembu í spurningaþætti

Atli Ísleifsson skrifar
Þáttastjórnandinn Grant Denyer sagði almenningi að hann ætti ekki að kenna þættinum um svörin.
Þáttastjórnandinn Grant Denyer sagði almenningi að hann ætti ekki að kenna þættinum um svörin. Mynd/Channel 10
Ástralska sjónvarpsstöðin Channel 10 hefur beðist afsökunar á einni spurningu í spurningaþættinum Family Feud þar sem keppendur voru beðnir um að geta hvaða svör hundrað manna hópur gaf þegar hann var beðinn um að nefna „kvenmannsstarf“.

„Réttu“ svörin sneru meðal annars að matreiðslu, þrifum, hárgreiðslu, heimilisstörfum, afgreiðslu og uppvaski. „Réttu“ svörin fyrir karlastörf voru meðal annars byggingameistari, pípulagningamaður og bifvélavirki.

Sjónvarpsstöðin sagði svörin „ekki endurspegja skoðun allra Ástrala“.

Þátturinn gengur út á að tvær fjölskyldur keppa í því að geta hver séu vinsælustu svörin þegar ákveðin spurning hefur verið lögð fyrir hundrað manna hóp.

Þáttur gærdagsins vakti mikla reiði á samfélagsmiðlum, þar sem áhorfendur sögðu þáttinn lykta af karlrembu, vera skammarlegur og ýta undir staðalímyndir kynjanna.

Í þætti miðvikudagsins spurði þáttastjórnandinn Grant Denyer þátttakendur um að „nefna eitthvað sem fólk álítur vera kvenmannsstarf“. Fyrr í þættinum hafði hann spurt þátttakendur um að „nefna eitthvað sem fólk álítur vera karlmannsstarf“.

Í tilkynningu frá sjónvarpsstöðinni segir að spurningarnar hafi verið vanhugsaðar og hefðu ekki átt að vera með í þættinum. Denyer svaraði hins vegar á Twitter: „Ekki kenna okkur um svörin, þetta eru svör ykkar Ástrala“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×