Erlent

Vöknuðu við skilaboðin: „Dangerous Situation“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dagný og Berglind eru liðsfélagar hjá Florida State.
Dagný og Berglind eru liðsfélagar hjá Florida State. Vísir/AP
Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir eru nemendur við Florida State University þar sem byssumaður særði þrjá í nótt áður en hann var skotinn til bana af lögreglu á háskólasvæðinu.

„FSU ALERT! Dangerous Situation! Main Campus - Tallahassee,“ voru skilaboðin sem biðu í farsímum þeirra Berglindar og Dagnýjar þegar þær vöknuðu í morgun.

„Ég á að vera í skólanum en honum var lokað útaf skotárásinni,“ segir Dagný í samtali við Vísi. Hún átti að mæta í tíma klukkan átta í morgun og vaknaði rétt upp úr sjö. Skilaboðin að ofan blöstu við og um leið kviknuðu spurningar hjá knattspyrnukonunni frá Hellu.

Þrír særðust en byssumaðurinn var skotinn til bana.Vísir/AP
Oft farið á bókasafnið

„Venjulega kemur fram hvers vegna send er út viðvörun. Útaf stormi eða öðru. Þarna var bara viðvörunin en engar upplýsingar,“ segir Dagný. Hún skoðaði í kjölfarið tölvupóstinn sinn þar sem frekari upplýsingar var að finna. Þar hafði fólk verið hvatt til að halda sig innandyra og frá gluggum. Í ljós kom að árásin hafði átt sér stað á aðalbókasafninu í skólanum. Einn liðsfélagi Dagnýjar var einmitt á bókasafninu fram á nótt en hafði yfirgefið svæðið örfáum mínútum áður en maðurinn lét til skarar skríða.

„Ég var oft á bókasafninu fyrsta árið mitt og fer ennþá þangað þegar ég er að vinna í hópverkefnum. Ég þekki fullt af fólki sem fer þangað að læra,“ segir Dagný. Hún bendir á að aðeins tvær vikur séu í próf og því hafi verið nokkuð þétt setinn bekkurinn á bókasafninu þrátt fyrir að komið var verið vel fram yfir miðnætti. Þær stöllur búa saman í nágrenni háskólasvæðisins og telur Dagný að hún sé um sjö mínútur á bókasafnið á vespunni sinni.

„Þetta er mjög skrýtin tilfinning því maður upplifir sig alltaf svo örugga. Hvað þá á bókasafninu,“ segir Dagný.

Í frétt Washington Post kemur fram að nemendur hafi falið sig undir skrifborðum og bak við bókahillur. Aðrir hafi lokað sig af inni í herbergjum. Sumir hafi tekið upp atburðarásina á síma sína þar sem þeir hlupu í skjól eftir göngum bókasafnsins.

Fundur hjá liðinu í hádeginu

Særður nemandi sást öskra „Ég varð fyrir skoti“ um leið og hann hélt um fótinn sinn á meðan blóð fossaði yfir buxur hans. Áður höfðu í það minnsta tveir særst. Byssumaðurinn, sem ekki hefur verið uppgefið hver var, var skotinn af lögreglumönnum í Tallahassee eftir að hann skaut í áttina að þeim fyrir utan bókasafnið.

Klukkan fjögur í morgun að staðartíma var hættuástandi aflétt. Enn er óvíst hvernig maðurinn komst inn á bókasafnið.

„Ég skil það ekki. Maður þarf að vera með Florida State kort til að komast inn á bóksafnið,“ segir Dagný. Hún bendir þó á að vel geti verið að hann hafi einfaldlega stokkið yfir öryggisgrindverkið.

Þótt skóli falli niður í dag reiknar Dagný með því að lið þeirra Berglindar æfi. Boðað hefur verið til fundar í hádeginu þar sem hún reiknar með að tíðindi næturinn verði á dagskrá. Allajafna hittist liðið aðeins í hádeginu á leikdegi. Stelpurnar mæta liði Northeastern University í 32-liða úrslitum NCAA háskólaboltans á morgun. Vinni þær sigur sem flestir reikna með eiga þær annan leik, einnig á heimavelli, fyrir höndum í 16-liða úrslitum á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×