Erlent

Kennari rakaði stúlku undir höndunum í miðri kennslustund

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Atvikið hefur vakið nokkuð mikla athygli í Ástralíu
Atvikið hefur vakið nokkuð mikla athygli í Ástralíu
Kennari í skóla í fylkinu Victoria í Ástralíu rakaði handakrika nemanda í tíma. Móðir stúlkunnar er brjáluð vegna málsins og segir dóttur sína hafa verið í sjokki þegar hún kom heim úr skólanum.

Stúlkan, sem er fjórtan ára, er með taugasjúkdóm, á við námserfiðleika að stríða og gengur í skóla fyrir fötluð börn.

Raksturinn átti sér stað í einskonar lífsleiknitíma. Hún var eini nemandinn í kennslustundinni. Kennarinn tjáði stúlkunni að henni yrði strítt ef hún myndi ekki raka sig undir höndunum.

Móðirin ræddi við kennarann

„Ég ræddi málin við kennarann daginn eftir og hún tjáði mér að hún væri í fullum rétti,“ segir móðirin. Móðirin viðurkenndi að hafa vitað að rakstur líkamshára hafi verið hluti af umfjöllunarefninu í þessum lífsleiknitímum. Hún segist þó ekki hafa trúað sínum eigin augum þegar hún sá að handakrikar dóttur hennar hafi verið rakaðir

Skólastjórinn í skólanum sagði að í framtíðinni myndu kennarar sækja um leyfi frá foreldrum þegar raka ætti nemendur undir höndunum. Hann benti á að stúlkan hafi aldrei beðið um að kennarinn hætti að raka hana undir höndunum.

„Hún á mjög erfitt með að tjá sig," segir móðrin og gefur því lítið fyrir útskýringar skólayfirvalda. Hún telur að þessi ákvörðun skólans - að raka handakrika dóttur hennar - sé tímaskekkja. „Hún hefur áður sagt mér að hana langi ekki til að raka sig. Hún hefur séð mig raka mig undir höndunum og fundist það einkennilegt. Ég hef alltaf sagt henni að það sé allt í lagi, hún eigi bara að koma til mín þegar hún sé tilbúin.“

Ekki er vitað hvort móðir stúlkunnar ætli að fara lengra með málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×