Erlent

Assad stefnir ótrauður á kosningar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Eyðilegging Frá borginni Aleppo í Sýrlandi þar sem sprengjur hersins hafa kostað nærri tvö þúsund lífið.
Eyðilegging Frá borginni Aleppo í Sýrlandi þar sem sprengjur hersins hafa kostað nærri tvö þúsund lífið. Vísir/AP
Á þriðjudaginn kemur efna sýrlensk stjórnvöld til forsetakosninga. Enginn efast um að Bashar al Assad, sem tók við sem forseti af föður sínum árið 2000, muni bera sigur úr býtum. Annað tæki hann ekki í mál.

Kosningarnar verða haldnar í miðri borgarastyrjöld. Þrjár milljónir íbúanna hafa flúið til nágrannaríkjanna og sex milljónir eru á vergangi innan landamæranna. Samtals er meira en þriðjungur íbúanna flúinn að heiman og óvíst með öllu hvernig þetta fólk ætti að fara að því að taka þátt í kosningunum.

Á Vesturlöndum er því litið á kosningarnar sem skrípaleik. Tveir menn hafa til málamynda boðið sig fram gegn Assad, að því er virðist í þeim tilgangi einum að ljá kosningunum örlítinn blæ trúverðugleika.

Borgarastyrjöldin síðustu þrjú árin hefur kostað hátt á annað hundrað þúsund manns lífið.

Í gær skýrðu svo sýrlensku mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights, sem hafa bækistöðvar á Bretlandi, frá því að það sem af er þessu ári hafi tunnusprengjur stjórnarhersins kostað nærri tvö þúsund manns lífið í borginni Aleppo. Hátt í sex hundruð þeirra voru yngri en 18 ára og nærri 300 voru konur.

Stjórnarherinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að nota tunnusprengjur gegn almenningi í borginni, sem er fjölmennasta borg landsins og var fram á allra síðustu misseri helsta miðstöð verslunar og viðskipta. Sprengjurnar eru útbúnar þannig að málmbrotum er hrúgað í tunnu ásamt sprengiefni og þessu er svo kastað úr þyrlum.

Frá árinu 2012 hefur stjórnarherinn ákaft reynt, en lítið orðið ágengt, að hrekja uppreisnarmenn frá borginni, sem þeir hafa að stórum hluta haft á sínu valdi.

Tunnusprengjunum er varpað á þau hverfi borgarinnar, sem uppreisnarmenn hafa á sínu valdi. Sprengjunum er ætlað að valda sem mestu tjóni og stjórnarherinn virðist ekki láta sig neinu varða hvort þær koma niður á uppreisnarmenn eða almenna borgara.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sendi í febrúar frá sér ályktun þar sem þess var krafist að stjórnarherinn hætti að gera árásir á almenna borgara í Sýrlandi. Meðal annars var þess krafist að hann hætti að varpa tunnusprengjum á íbúðahverfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×