Innlent

Tap á A-hluta borgarsjóðs 2,3 milljarðar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ráðhús Reykjavíkur
Ráðhús Reykjavíkur VÍSIR/ANTON BRINK
Óendurskoðaður árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar til júní 2014 var staðfestur í borgarráði í dag, fimmtudaginn 28. ágúst.

Þar kemur fram að rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 2.353 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 1.711 milljónir króna á tímabilinu og er niðurstaðan því lakari en gert var ráð fyrir, sem nemur 642 milljónum króna.

Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, þ.e. rekstur fagsviða, Eignasjóð og Bílastæðasjóð.

Rekstrarniðurstaða A-hluta fyrir fjármagnsliði var þannig neikvæð um 1.973 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 1.496 milljónir króna eða 477 milljónum krónum lakari en áætlun gerði ráð fyrir.   Lakari rekstrarniðurstaða skýrist meðal annars af minni tekjum af sölu byggingaréttar en áætlun gerði ráð fyrir og auknum kostnaði við vetrarþjónustu.

Halldór Halldórsson og Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, telja að rekstrarniðurstaðan sé óviðunandi þrátt fyrir hækkun útsvarstekna um tæpan einn milljarð króna.

„Þessi niðurstaða á rekstri borgarsjóðs kallar á uppstokkun og nýja hugsun í rekstri borgarinnar", segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A og B hluta, var þó jákvæð um 3.723 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 2.203 milljónir króna. Rekstrarniðurstaðan er því 1.520 milljónum krónum betri en gert var ráð fyrir.

Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum.

Helstu ástæður má rekja annars vegar til tekjufærslu matsbreytinga fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum og hins vegar til áhrifa fjármagnsgjalda hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Þar vegur þyngst gengismunur og verðmæti innbyggðra afleiða.  

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 6.667 milljónir króna sem er 591 milljón krónum lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×