Innlent

Segja að spurningunni um ólögmæti verðtryggingarinnar sé enn ósvarað

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason mynd/365
Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent frá sér yfirlýsingu eftir að EFTA dómstóllinn úrskurðaði um að íslenskir dómstólar skuli skera úr um lögmæti verðtryggingarinnar.

Í yfirlýsingunni segir að spurningunni um ólögmæti verðtryggingarinnar sé enn ósvara.

EFTA-dómstóllinn í Lúxemborg komst að þeirri niðurstöðu að tilskipun Evrópusambandsins um óréttmæta skilmála í neytendasamningum leggi ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu veðlána í samningum milli veitenda og neytenda.

„Í dag skilaði EFTA dómstóllinn áliti sínu í einu af þremur málum sem eru fyrir dómstólum og fjalla um lögmæti verðtryggingar. Mál þetta er höfðað af einstaklingi gegn Íslandsbanka og snýst um húsnæðislán út frá óréttmætum samningsskilmálum. Það er frábrugðið öðrum málum er varða verðtryggingu og bíða úrlausnar fyrir dómstólum að því leyti að málatilbúnaðurinn byggist ekki á tilskipun um neytendalán,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að helsta spurningin sem leitað var álits um í þessu máli snúi að því hvort verðtryggingin sjálf sé lögleg, en ekki hvort útfærsla hennar og kostnaður hafi verið rétt kynntur fyrir lántakendum.

„Niðurstaða EFTA dómstólsins er sú að það sé á færi íslenskra dómstóla að taka afstöðu til þess hvort skilmálar verðtryggðra neytendalána séu óréttmætir. Tvö önnur mál um verðtryggingu eru fyrir dómstólum, annað þeirra er rekið af Hagsmunasamtökum heimilanna og hitt af Verkalýðsfélagi Akraness. Bæði snúast þau um framkvæmd verðtryggingar hér á landi, það er hvort kynning fyrir neytendum á kostnaði við verðtryggingu sé í samræmi við lög um neytendalán nr. 121/1994, en lögin fela í sér mjög skýr ákvæði um upplýsingagjöf til neytenda við lántöku.“

Fram kemur í tilkynningunni að það dómsmál sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að baki sé rekið af félagsmönnum í samtökunum, en samtökin greiða af því allan kostnað.

„Málið fjallar um venjulegt, íslenskt, verðtryggt húsnæðislán sem tekið var hjá Íbúðalánasjóði. Málatilbúnaðurinn snýst um útfærslu verðtryggingar og upplýsingar um hana í lánasamningi þar sem miðað var við 0 % verðbólgu í greiðsluáætlun. Þetta telja samtökin ekki samræmast ákvæðum laga um neytendalán (nr. 121/1994) og á það við um lán til fasteignakaupa frá árinu 2001 þegar neytendalánalögunum var breytt þannig að þau næðu einnig til húsnæðislána.“

Málið sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur enda telji Neytendastofa, stjórn HH og lögmenn sem komið hafa á málinu það mjög skýrt í íslenskum lögum um neytendalán hvaða upplýsingar þurfi að koma fram í lánasamningum um lánskostnað, þar með talið verðbætur.

„Álit EFTA dómstólsins fá því í morgun styður ákvörðun Hagsmunasamtaka heimilanna um að ekki væri þörf á áliti frá EFTA vegna dómsmálsins sem samtökin standa að baki, enda eru íslensk lög um neytendalán alveg skýr. Íslenskir dómstólar ættu ekki að vera í neinum vandræðum með að dæma eftir þeim um hið sérséríslenska fyrirbrigði sem verðtrygging neytendalána er.“

Einnig kemur fram í tilkynningunni að Hagsmunasamtök heimilanna hafi aldrei haldið því fram að verðtrygging sem slík sé ólögleg milli fagfjárfesta, fjármálafyrirtækja og ríkisins.

„Þegar hins vegar kemur að lánasamningum við neytendur ber lánveitendum skylda til að standa rétt að upplýsingagjöf í samræmi við lög um neytendalán. Þeirri spurningu hvort rétt hafi verið staðið að þeirri upplýsingagjöf, og þar með hvort útfærsla verðtryggðra neytendalánasamninga sé og hafi verið lögleg hér á landi, er því enn ósvarað.“


Tengdar fréttir

Telur líklegt að verðtryggingin haldi hjá íslenskum dómstólum

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, telur líklegt að verðtrygging neytendalána haldi þegar málið fer fyrir íslenska dómstóla. Hann segir mikilvægt að búið sé að eyða þeirri óvissu sem var uppi vegna ákvörðunar EFTA-dómstólsins.

Menn önduðu léttar í Seðlabankanum

Óvissu um lögmæti verðtryggingar hefur að miklu leyti verið eytt með dómi EFTA-dómstólsins og niðurstaðan er jákvæð fyrir fjármálastöðugleika í landinu, segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Verðtryggingin heldur

Íslandsbanki vann fullnaðarsigur í máli gegn Gunnari V. Engilbertssyni fyrir EFTA dómstólnum.

Rökrétt niðurstaða að mati Viðskiptaráðs

Hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands segir mikilvægt að málinu ljúki hjá íslenskum dómstólum. Bendir á að seinna málið fyrir EFTA-dómstólnum er óafgreitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×