Viðskipti innlent

Telur líklegt að verðtryggingin haldi hjá íslenskum dómstólum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, telur líklegt að verðtrygging neytendalána haldi þegar málið fer fyrir íslenska dómstóla. EFTA-dómstóllinn hefur lagt það í vald dómstóla hér á landi að taka afstöðu til þess hvort verðtryggingin falli innan gildissviðs tilskipunar ESB um tilskipun um óréttmæta skilmála í neytendasamningum og þá meta það hvort hún teljist ósanngjarn samningsskilmáli.

„Álit dómstólsins er þess eðlis að líkurnar á því að eitthvað gerist fyrir íslenskum dómstólum, sem hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir fjármálakerfið eða efnahagskerfið, þær eru orðnar litlar,“ segir Már.

Seðlabankastjóri segir mikilvægt að búið sé að eyða þeirri óvissu sem var uppi vegna ákvörðunar EFTA-dómstólsins.

„Henni hefur verið eytt með hætti sem líka dregur úr óvissu varðandi verðtrygginguna almennt og þá áhættu sem kann að stafa af dómsmálum fyrir fjármálastöðugleika. Það er því betri vissa fyrir því að það er ekki að koma mikið áfall úr þessari átt.“

Már segir starfsfólk Seðlabankans hafa búið sig undir það ef EFTA-dómstóllinn hefði komist að þeirri niðurstöðu að verðtryggingin væri ólögmæt samkvæmt tilskipuninni. 

„Það var búið að greina þetta lagalega og efnahagslega og áhrifin á fjármálakerfið út frá ýmsum sviðsmyndum. Auðvitað töldu okkar lögfræðingar og ráðgjafar að það væri ólíklegt að niðurstaðan yrði með einhverjum þeim hætti sem myndi grafa undan verðtryggingunni í stórum stíl. En við vorum búin að undirbúa okkur undir hitt líka,“ segir Már.

Leiðrétting: Í fréttinni var áður talað um tilskipun ESB um neytendalán. Tilskipunin sem um ræðir er um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×