Erlent

Kóalabjörn á grilli bíls lifði af 88 kílómetra bílferð

Atli Ísleifsson skrifar
Kólabjörninn var nokkuð skelkaður eftir bílferðina og verður komið aftur til síns heima þegar hann er búinn að jafna sig.
Kólabjörninn var nokkuð skelkaður eftir bílferðina og verður komið aftur til síns heima þegar hann er búinn að jafna sig. Vísir/Getty
Kóalabjörn komst lífs af eftir að hafa þurft að þola tæplega níutíu kílómetra bílferð í norðausturhluta Ástralíu þar sem hann hélt dauðataki í grill bílsins.

Dýrið hafði klifrað upp á grillið nærri bænum Maryborough þegar fjölskylda nokkur hélt för sinni áfram og ók hraðbrautina þessa löngu leið.

Fjölskyldan tók fyrst eftir dýrinu þegar bílstjórinn stöðvaði bílinn á bensínstöð í Gympie, 88 kílómetrum frá síðasta stoppi. Dýralæknar voru kallaðir til og var skelkuðum kóalabirninum komið fyrir í nálægum dýragarði þar sem hann var tekinn til ítarlegrar rannsóknar. Það eina sem virtist ama að birninum var klofin nögl.

Í frétt Sky News segir að björninn hafi nú fengið nafnið Timberwolf. Claude Lacasse, starfsmaður dýragarðsins, segir það ótrúlegt að kóalabjörninn hafi lifað bílferðina af. „Þetta er virkilega ótrúleg saga. Þetta er mjög heppinn kóalabjörn.“

Timberwolf jafnar sig nú í dýragarðinum í Brisbane og verður skilað aftur á þann stað þar sem hann á að hafa fest sig við bílinn þegar dýralæknar telja hann reiðubúinn til brottfarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×