Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram skriflega fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Alþingi í gær þar sem hann óskar eftir svörum vegna hvalabjórs brugghússins Steðja.
Sala og dreifing bjórsins var heimiluð af Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en hann var áður bannaður af Heilbrigðiseftirliti Vesturlands á þeim forsendum að hvalamjöl sem notað er við framleiðslu bjórsins þótti ekki uppfylla skilyrði laga um matvæli.
Mörður spyr hvort starfsleyfi Hvals hf. nái til framleiðslu hvalamjöls til að nota í matvæli og til framleiðslu kryddvöru. Einnig vill hann fá svör við því hvers vegna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið telur, samkvæmt bréfi til Brugghússins Steðja ehf. 24. janúar, að lagagrundvöllur sé „óviss“ við ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands 13. janúar um bjórinn.
Þá spyr Mörður um það hvaða umsagnir hafi borist ráðuneytinu um málið frá undirstofnunum þess eða öðrum áður en ráðherra ákvað að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar.
Að lokum spyr hann hvort ráðherra eða ráðuneytisstarfsmaður hafi beðið Heilbrigðiseftirlit Vesturlands eða heilbrigðisnefnd Vesturlands að afturkalla ákvörðunina um hvalamjölið áður en ráðherra ákvað að fresta réttaráhrifum hennar, og þá á hvaða hátt, á grundvelli hvaða laga og með hvaða rökum.
Helgi Helgason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, segir í samtali við vísi að ákvörðun ráðherra komi sér á óvart. Ekki hefur náðst í Sigurð Inga þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
