Innlent

Gengur í nótt á Selfoss og syndir í minningu barnabarns síns

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Guðný Sigurðardóttir, sem kallar gönguna sína „Kærleiksverk ömmu Guðnýjar og Vilhelms Þórs.“
Guðný Sigurðardóttir, sem kallar gönguna sína „Kærleiksverk ömmu Guðnýjar og Vilhelms Þórs.“ Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Ég verð þarna algjörlega á eigin vegum, ég verð sjálf að gæta mín á umferðinni og einnig  að huga að líkamlegum þörfum mínum. Þetta er ekki ganga á vegum neins „gönguhóps eða félags“ þetta er bara gangan mín, sem er hugsuð sem minningarferð um dótturson minn sem drukknaði í Sundlauginni á Selfossi  fyrir þremur árum “ segir Guðný Sigurðardóttir á Selfossi sem ætlar að byrja að ganga á miðnætti í kvöld  frá Landspítalanum í Reykjavík að Sundhöll Selfoss og synda þar 286 ferðir.

Þann 21. maí fyrir þremur árum varð slys í Sundhöll Selfoss þar sem dóttursonur Guðnýjar, Vilhelm Þór, drukknaði. Hann var fluttur á Landsspítalann í Reykjavík þar sem læknar og hjúkrunarfræðingar reyndu sitt allra besta til þess að bjarga honum. En allt kom fyrir ekki og var hann úrskurðaður látinn daginn eftir.

Ferðin sem amma Guðný er að leggja uppí er því mjög táknræn fyrir hana og alla fjölskylduna. Að ganga öfuga leið við hinstu ferð Vilhelms Þórs með sjúkrabílnum og synda svo 286 ferðir í innilauginni þar sem slysið varð eða jafn margar ferðir og vikurnar sem hann lifði.

Með göngu sinni og sundi vill Guðný vekja athygli á mikilvægi nýstofnaðra samtaka, Birta - Landssamtök foreldra/forráðamanna sem misst hafa börn/ungmenni með skyndilegum hætti.  Áætlaður göngutími er um 14 klst. Til stendur að hópur fólks muni bætast við gönguna í Hveragerði og ganga síðasta áfangann.

Stofnaður hefur verið reikningur þar sem fólk og fyrirtæki geta lagt inn frjáls framlög samtökunum til stuðnings. Einnig er hægt að hringja í númerið 901-5050 og styðja við samtökin með þúsund króna framlagi. Öll getum við séð af 1000 krónum til að styrkja og styðja Birtu-Landssamtök. Reikn. 1169-05-1100 og Kt. 231261-2579.


Tengdar fréttir

Gengur og syndir í minningu Vilhelms

Guðný Sigurðardóttir ætlar að ganga frá Reykjavík til Selfoss næsta sumar til minningar um dótturson sinn, Vilhelm Þór, sem lést árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×