Leit að farþegaflugvél AirAsia, hefst að nýju í kringum miðnætti að íslenskum tíma. Vélin hvarf af ratsjám í gærkvöldi en leitinni var hætt í dag vegna myrkurs og erfiðra aðstæðna. Þó hafa nokkur skip verið á leitarsvæðinu í dag.
Hver afdrif vélarinnar er er öllum hulin ráðgáta en hún var á leið frá Surabaya í Indónesíu til Singapore. Ekkert neyðarkall barst frá flugvélinni áður en hún hvarf en í henni eru 162 farþegar, þar af 17 börn. Skömmu áður en vélin hvarf óskaði flugstjórinn eftir leyfi til að hækka flugið úr 32 þúsund fetum í 38 þúsund fet. Það var hins vegar ekki heimilað vegna flugumferðar fyrir ofan vélina.
Flugfélagið AirAsia er frá Malasíu. Aldrei hefur farist vél frá félaginu og þykja öryggismál almennt í góðu lagi. Vélin sem hvarf er sex ára gömul og hafði farið í reglubundna skoðum 16. nóvember.
