Þetta er það sem við vitum. Nánari umfjöllun fyrir neðan punktana.
- Flugvél AirAsia, Qz8501, var á leið frá Surabaya í Indónesíu til Singapore en missti samband við flugumferðarstjórn klukkan 7.24 að staðartíma.
- 162 einstaklingar eru um borð í vélinni, sem er af gerinni A320-200. Þar af eru sjö áhafnarmeðlimir.
- Flestir um borð eru frá Indónesíu, eða 155. Þrír eru frá Suður-Kóreu, einn frá Malasíu, einn frá Singapore, einn frá Bretlandi og einn áhafnarmeðlimur frá Frakklandi.
- Flugstjóri vélarinnar bað um leyfi til að hækka flugið í 38.000 fet til að komast hjá vondu veðri stuttu áður en samband við vélina rofnaði. Ekkert neyðarkall hefur borist frá vélinni.
- Leitað er í kringum eyjarnar Bangka og Belitung, austur af Súmötru.
- Leit hefur verið tímabundið hætt. Reiknað er með að leitin hefjist aftur eftir nokkra tíma.

Ekkert neyðarkall hefur verið sent frá vélinni, samkvæmt Joko Muryo Atmodjo, yfirmaður flugmála í indónesíska samgönguráðuneytinu.
Indónesísk stjórnvöld hafa sent átta skip, tvær þyrlur og þrjár flugvélar að leita að vélinni. Leitað er í kringum Bangka og Belitung, sem eru tvær eyjur austur af Súmötru. Stjórnvöld í Singapore hafa sent eina C130 flugvél að leita og Malasía hefur sent þrjú skip og eina flugvél á leitarsvæðið.

Bæði yfirvöld í Singapore og Malasíu hafa boðið fram aðstoð við leitina. Samkvæmt yfirlýsingu frá yfirvöldum í Singapore hafa indónesísk stjórnvöld þegið boð um hjálp. Ástralir hafa einnig boðið fram aðstoð við leitina þrátt fyrir að enginn Ástrali hafi verið um borð í vélinni.
Fleiri erlend ríki fylgjast með stöðunni og hefur Barack Obama fengið skýrslu um hvarfið, samkvæmt talsmanni Hvíta hússins. Þá hefur talsmaður utanríkisráðuneytis Kína sagt að Kínverjar hafi þungar áhyggjur af öryggi farþega og áhafnarmeðlima vélarinnar.