Enski boltinn

City-menn sýndu styrk sinn gegn Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stevan Jovetic fagnar marki sínu.
Stevan Jovetic fagnar marki sínu. vísir/getty
Englandsmeistarar Manchester City sýndu styrk sinn í kvöld með því að vinna 3-1 sigur á Liverpool þegar tvö efstu lið síðasta tímabils mættust á á Ethidad-leikvanginum í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Manchester City er þar með fullt hús eftir tvær fyrstu umferðirnar alveg eins og Tottenham, Chelsea og Swansea. Liverpool er hinsvegar í 9. sætinu með 3 stig.

Sigur Manchester City var sanngjarn og öruggur og Liverpool-liðið virðist ekki vera í sama klassa og City-menn.

Svartfellingurinn Stevan Jovetic skoraði tvö fyrstu mörkin og Argentínumaðurinn Sergio Aguero skoraði þriðja markið aðeins nokkrum sekúndum eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Liverpool minnkaði muninn undir lokin þegar Pablo Zabaleta varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir skalla Rickie Lambert.

Liverpool-menn voru að gera ágæta hluti fram eftir leik og það leit ekki út fyrir skell. Þvert á móti gerði silfurliðið frá því í fyrra sig líklegt til að skora fyrsta markið í leiknum. City-menn refsa hinsvegar fyrir hver mistök og varnarmenn Liverpool-liðsins gerðu sig heldur betur seka um þau í kvöld.

Fyrsta markið skoraði hinsvegar Stevan Jovetic á besta tíma, fjórum mínútum fyrir hálfleik. Hann nýtti sér klaufagang í vörn Liverpool og skoraði með góðu skoti.

Jovetic bætti síðan við öðru marki eftir frábæra sókn eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik. Jovetic var allt í öllu í undirbúningnum og skoraði síðan með skoti úr teignum eftir sendingu frá Samir Nasri fyrir markið.

Það tók síðan Sergio Aguero aðeins 23 sekúndur að komast á blað eftir að hafa komið inn á sem varamaður fyrir Edin Dzeko. Aguero fékk þá langa sendingu frá Jesus Navas inn fyrir sofandi vörn Liverpool og skoraði af öryggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×