Erlent

Fyrrum borgarstjóri New York ver rétt múslima að byggja mosku

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá Michael Bloomberg fyrir fjórum árum síðan, þegar hann heimsótti múslima í New York.
Hér má sjá Michael Bloomberg fyrir fjórum árum síðan, þegar hann heimsótti múslima í New York. Vísir/Getty
„Að ríkisstjórn taki ein trúarbrögð fyrir og banni fylgjendum þeirra að byggja bænahús á ákveðnum stað, er algjörlega gegn grunngildum þjóðarinnar, sem eru varin í stjórnarskránni,“ sagði Michael Bloomberg, fyrrum borgarstjóri New York, í ræðu í gær. Í ræðunni  fjallaði hann um byggingu mosku í grennd við reitinn þar sem tvíburaturnarnir svokölluðu stóðu áður. Reiturinn ber nú heitið Ground Zero og byggingin sem þar var áður nefndist World Trade Center.

Moskan var afar umdeild og var byggingu hennar mótmælt af mörgum, fyrir tæpum fjórum árum síðan. Þeim sem mótmæltu þótti ekki við hæfi að moska myndi rísa svo nálægt Ground Zero, þessum fræga reit. Eins og flestir vita urðu tvíburaturnarnir fyrir árás hryðjuverkasamtakanna Al Kaída þann 11. september 2001. Þessi staður er mörgum Bandaríkjamönnum mjög mikilvægur.

„Eins og margir muna reyndu einhverjir að koma í veg fyrir að moska myndi rísa í grennd við World Trade Center. Þetta var mikið hitamál. Tveir þriðju bandarísku þjóðarinnar var andvígur byggingu mosku á þessu svæði,“ sagði Bloomberg í ræðunni í gær, sem var haldin til heiðurs útskriftanema Harvard-háskólans. Bloomberg sagði frá því að samtökin Anti-Defamation League, sem berjast fyrir algjöru trúfrelsi og gegn ofsóknum á gyðingum, hefðu meira að segja verið andvíg byggingunni.

„Ýmiskonar mótmæli voru skipulögð. Fólkið fordæmdi verktana sem unnu að byggingu moskunnar. Mótmælendur kröfðust þess að borgin stöðvaði byggingu moskunnar.“

Moskunni var mótmælt í New York.Vísir/Getty
Bloomberg sagði þó mikilvægt að muna að mótmælendurnir áttu rétt á sinni skoðun:

„Þeir voru í fullum rétti og við vörðum þeirra rétt til að mótmæla og koma sínum skoðunum á framfæri. En á sama tíma neituðum við að verða við kröfum þeirra. Það er í okkar verkahring að tryggja að jafnræði þýði í raun jafnræði. Ef þú vilt frelsi til að trúa því sem þú vilt, segja það sem þú vilt eða giftast þeim sem þú vilt verður þú líka að virða minn rétt til þess að gera það sama. Kannski þykja þér mínar gjörðir vera siðlausar eða óréttlátar. En með því að takmarka minn rétt, en halda þínum eigin réttindum, ertu að ganga í lið með óréttlætinu,“ sagði fyrrum borgarstjórinn.



Bloomberg sagði að menn hafi oft reynt að takmarka réttindi minnihlutans í gegnum tíðina. En borgir gætu ekki þrifist ef gengið væri á réttindi tiltekins minnihlutahóps. Hann tengdi þetta við skoðanafrelsi í háskólum og rétt háskólafólks að tjá sig um málefni líðandi stundar. Hann sagði mikilvægt að háskólasamfélagið hefði frelsi til þess að setja fram staðreyndir sem samræmdust ekki endilega skoðunum stjórnmvalda:

„Í stjórnmálum – og í alltof mörgum háskólum – á fólk erfitt með að heyra staðreyndir sem samræmast ekki þeirra eigin skoðunum. Fólk hræðist þær staðreyndir meira en nokkuð annað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×