Erlent

Biðla til barþjóna að gefa flugfarþegum minna að drekka

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vél Turkish Airlines
Vél Turkish Airlines Visir/AFP
Alþjóðleg samtök flugfélaga, IATA, ræddu á ársfundi sínum um vandamál sem kunna að skapast vegna of drukkinna flugfarþega sem oft valda miklum usla á ferðalögum sínum. Vilja margir forráðamenn flugfélaga meina að flugdólgarnir séu ofurölvi áður en þeir stíga til borðs og því skuli vandamálið skrifast á bari flugstöðvanna en ekki á vínveitingar í vélunum.

Frá þessu greinir vefsíðan Túristi.is

Samtökin beina því þeim tilmælum til starfsmanna á veitingastöðum í brottfararsölum flughafna að hætta að afgreiða drukkna viðskiptavini. Segir ritari samtakanna að þetta sé gert til að auka öryggi farþega og áhafna. Alls er talið að um átta þúsund farþegar hafi valdið vandræðum með hegðun sinni í flugferðum í fyrra sem að miklu leyti megi rekja til ölvunar.

Borist hefur í tal í Noregi að setja þá á svartan lista sem gerst hafa sekir um dólgslæti í flugi og þannig meina þeim að kaupa fleiri ferðir. Hið tyrkneska Turkish airlines hefur einnig töluverðar áhyggjur af þróuninni og hafa forsvarsmenn flugfélagsins íhugað að hætta að veita vín á ferðum þess til Rússlands sökum ítrekaðra afskipta af drukknum rússneskum ólátabelgjum.

Við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af flugdólgum en þess er skemmst að minnast þegar þurfti að binda niður mann í flugi Icelandair til New York í janúar í fyrra. Sá hafði slegið til flugfarþega og hrækt á starfsfólk vélarinnar. Kostnaðurinn við flugdólga hleypur á milljörðum króna árlega hjá flugfélögum heimsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×