Erlent

Enn skolar Legó á land í Cornwall

Atli Ísleifsson skrifar
Fleiri milljónir lególeikfanga voru í einum gámnum sem fór í sjóinn undan ströndum Englands árið 1997.
Fleiri milljónir lególeikfanga voru í einum gámnum sem fór í sjóinn undan ströndum Englands árið 1997. Vísir/Lego lost at sea
Lególeikföngum skolar enn á land á ströndum Cornwall í suðvesturhluta Englands í stórum stíl, um sautján árum eftir að gámur fullur af legói fór í sjóinn árið 1997.

Milljónir lególeikfanga voru í gámnum en í stað þess að verða eftir á hafsbotni hafa þau leitað upp á yfirborðið og skolað á land.

Í frétt BBC segir að legóið hafi veitt vísindamönnum góða innsýn í heim hafsins og strauma þess.

„Leyfið mér að athuga hvort ég finni bjúgsverð,“ segir Tracey Williams, íbúi Newquay í samtali við BBC, þegar hún rótar milli stórra steina á Perran Sands ströndinni með priki. Henni tekst það ekki, en finnur þó legóblóm, sem reynist vera í fínasta ásigkomulagi þrátt fyrir sautján ár í sjónum.

Legóblómið er eitt af 353.264 sem fór í sjóinn þegar 62 gámar fóru af flutningaskipinu Tokio Express þann 13. febrúar 1997. Einn gámanna var fullur af lególeikföngum, um 4,8 milljónum stykkja, en skipið var á leið til New York í Bandaríkjunum. Fljótlega eftir slysið fór lególeikföngum að skola á land og svo er enn í dag.

Tracy Williams heldur úti Facebook síðu, Lego lost at sea, þar sem hún skráir legófundi sína. „Það eru til sögur af krökkum undir lok tíunda áratugarins þar sem þeir voru með fötur fullar af legódrekum og seldu þá,“ segir Williams og bætir við að það sé sérstaklega óvenjulegt og gleðilegt að finna legódreka eða legókolkrabba á ströndum Cornwall nú til dags.

Í frétt BBC er einnig rætt við haffræðinga og líffræðinga um hvernig lególeikföngin hafa stuðlað að aukinni þekkingu um hafsstrauma og þá hættu sem slysið olli villtum sjávardýrum.

Vísir/Lego lost at sea
Vísir/Lego lost at sea



Fleiri fréttir

Sjá meira


×