Erlent

ESB sýnir auðmýkt

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Yfirmaður norðurslóðastefnu Evrópusambandsins tók þátt í opnum fundi í Norræna húsinu á mánudag.
Yfirmaður norðurslóðastefnu Evrópusambandsins tók þátt í opnum fundi í Norræna húsinu á mánudag. fréttablaðið/GVA
„Við sýnum auðmýkt í umgengni okkar við norðurskautið,“ sagði Richard Tibbels, sviðsstjóri norðurslóðamála hjá utanríkisþjónustu Evrópusambandsins (EEAS), þegar hann gerði grein fyrir norðurslóðastefnu Evrópusambandsins á opnum fundi í Norræna húsinu á mánudag.

Á ráðstefnunni kom fram að norðurslóðastefnan felst ekki síst í því að Evrópusambandið hefur komið á fót og tekur þátt í margþættum samstarfs- og samræðuvettvangi með öllum þeim ríkjum, sem eiga hagsmuna að gæta á norðurslóðum.

Tibbels segir Ísland nú þegar í töluverðu samstarfi við ESB í norðurslóðamálum, og þau samskipti eigi eftir að aukast á næstu misserum.

Hann segir ESB þessa dagana fylgjast með þróun mála í Rússlandi og nágrannaríkjum Rússlands, og telur fullvíst að Rússar hafi eins og önnur norðurskautsríki hag af því að friður ríki áfram á norðurslóðum, þrátt fyrir vaxandi hernaðaruppbyggingu Rússa þar.

„Norðurskautið hefur áratugum saman verið friðsælt og öruggt svæði, jafnvel á meðan kalda stríðið var í hámarki,“ segir Tibbels. „Ríkin hafa jafnan getað komist að niðurstöðu í ágreiningsmálum sínum og ég tel að það sé í allra þágu að svo verði áfram.“

Hvað varðar vaxandi áhrif Kínverja víða um heim, þá segir Tibbels afar mikilvægt að þeir séu nú komnir með áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.

„Kínverjar hafa nú tækifæri til að horfast í augu við skoðanir norðurskautsríkjanna.“

Hann segir sérlega mikilvægt að Kínverjar hafi nú tækifæri til að átta sig á því „hvað þeir þurfa að gera, kjósi þeir að fylgja eftir efnahagslegum hagsmunum sínum á norðurslóðum, þannig að það gangi ekki gegn hagsmunum norðurskautsríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×