Erlent

Leikstjóri hýsir morðingja úr eigin kvikmynd

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Frá vinstri: Bernie Tiede, Jack Black og Richard Linklater.
Frá vinstri: Bernie Tiede, Jack Black og Richard Linklater.
Fyrrverandi útfararstjórinn Bernie Tiede, sem dæmdur var árið 1999 í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða ekkju á níræðisaldri, hefur verið látinn laus úr fangelsi. Morðmálið var umfjöllunarefni kvikmyndarinnar Bernie sem kom út árið 2011 og fór leikarinn geðþekki Jack Black með hlutverk Tiedes í myndinni.

Sækjendur í málinu hafa nú fallist á það að Tiede þurfi ekki að afplána dóminn þar sem hann var misnotaður kynferðislega í æsku og seinna kúgaður af fórnarlambi sínu, hinni 81 árs gömlu Marjorie Nugent.

Dómari gaf leyfi fyrir því að Tiede fengi að búa í íbúð yfir bílskúr í borginni Austin í Texas en íbúðin er í eigu Richards Linklater, leikstjóra Bernie. Meðal mynda sem hann hefur leikstýrt eru School of Rock, Dazed and Confused og Before Sunrise-þríleikurinn.

Fannst í frystikistu

Tiede og Nugent kynntust árið 1990 og urðu nánir vinir, ferðuðust saman um heiminn og að lokum ákvað Nugent að Tiede skyldi erfa allar hennar eignir, um tíu milljónir dollara. Nugent hvarf árið 1996 en fannst að lokum í frystikistu á heimili sínu. Hún hafði verið skotin fjórum sinnum í bakið með riffli og játaði Tiede morðið á endanum.

Sálfræðingur sem rannsakað hefur Tiede segir að samband hans við gömlu konuna hafi verið flókið og að hún hafi kúgað hann. Segir sálfræðingurinn að Tiede sé ekki ofbeldishneigður og að sér þyki ólíklegt að hann muni brjóta af sér aftur. Ættingjar Nugent hafa þó gagnrýnt ákvörðun dómarans harðlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×