Erlent

Cosby afboðar sig eftir ásakanir um nauðganir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Cosby er sakaður um að hafa nauðgað þrettán konum.
Cosby er sakaður um að hafa nauðgað þrettán konum. vísir/afp

Búið er að afboða komu Bill Cosby, leikara og grínista, í sjónvarpsþáttinn Late Show með David Letterman á CBS. Talið er að það tengist ásökunum um kynferðislegt ofbeldi og nauðgunum.



Cosby átti að koma fram í þættinum á miðvikudag en afboðaði komu sína eftir að fjölmiðlar greindu frá því að þrettán konur hefðu sakað hann um nauðgun. Engar skýringar hafa þó fengist á afboðun hans, hvorki frá hans talsmönnum né sjónvarpsstöðinni CBS.



Barabara Bowman, ein þeirra sem sakað hefur Cosby um verknaðinn, birti pistil í Washington Post sem vakið hefur gríðarlega athygli. Segir hún þar að þegar hún var sautján ára hafi Cosby áunnið sér traust hennar og fengið hana til að líta á sig sem föðurímynd. Hann hafi ráðist á hana margoft og nauðgað henni ítrekað.



Uppistandarinn Hannibal Buress sagði áhorfendum á sýningu sinni í síðasta mánuði að Cosby væri nauðgari og að hann vonaðist til að fólk myndi að minnsta kosti sjá endursýningar af þáttum hans í öðru ljósi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×