Erlent

Komst að því að hún er gift bróður sínum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hjónin ætla sér að vera saman áfram, þrátt fyrir að vera systkin.
Hjónin ætla sér að vera saman áfram, þrátt fyrir að vera systkin.
Brasilísk kona komst að því að hún hefur verið gift bróður sínum í áratug, í beinni útsendingu á útvarpsstöð þar í landi.

Í þættinum hitti konan móður sína í fyrsta sinn í 38 ár, en móðir konunnar yfirgaf hana þegar hún var eins árs gömul.

Konan hafði notið aðstoðar þáttarstjórnenda The Time is Now, sem er þáttur á útvarpsstöðinni Radio Globo, til þess að finna móður sína.

Konan, sem heitir Adriana, ræddi við móður sína í þættinum, sem var á dagskrá í síðustu viku, og kom í ljós að hún átti eldri bróður að nafni Leandro. Adriana bætti þá við að hún væri gift manni sem ber sama nafn og eftir stutt spjall við móður sína kom í ljós að Adriana var gift bróður sínum. Leandro var átta ára gamall þegar móðir þeirra yfirgaf þau. Þau eiga sex ára dóttur saman.

„Ég trúi þessu ekki,“ sagði Adriana í þættinum og bætti við: „Nú er ég hrædd um að hann fari frá mér. Ég elska hann ótrúlega mikið."

Í viðtali eftir að þátturinn var sendur út sagði Adriana þó að systkinin ætluðu að halda áfram að vera saman og bætti við að það skipti þau engu máli hvaða álit aðrir höfðu á þeirri ákvörðun.

Þau kynntust fyrir tíu árum síðan. Þau höfðu bæði leitað móður sinnar lengi og hvorugt vildi gefast upp á leitinni. Þau eru frá sama bæ í Brasilíu og hittust fyrst þegar Adriana flutti aftur heim, eftir að hún skildi við fyrrum eiginmann sinn.

„Við verðum saman að eilífu," sagði hún og fullyrti: „Þetta gerðist allt vegna þess að Guð vildi það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×