Erlent

Siumut að ná sér á strik á lokasprettinum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Aleqa Hammond, forsætisráðherra fráfarandi stjórnar, sagði af sér vegna spillingarmáls.
Aleqa Hammond, forsætisráðherra fráfarandi stjórnar, sagði af sér vegna spillingarmáls. Nordicphotos/AFP
Sósíaldemókrataflokkurinn Siumut hefur verið að vinna fylgi á síðustu dögum samkvæmt skoðanakönnunum, og virðist ætla að verða stærsti flokkurinn eftir kosningarnar í dag.

Í skoðanakönnun frá því á miðvikudag er honum spáð 36,7 prósentum atkvæða, sem að vísu er töluvert fylgistap frá síðustu kosningum þegar flokkurinn fékk 43,2 prósent atkvæða.

Siumut kæmist þar með aftur í lykilstöðu við stjórnarmyndun, þrátt fyrir að spillingarmál hafi valdið falli fráfarandi stjórnar flokksins.

Vinstriflokkurinn Inuit Ataqatigiit hefur að sama skapi dalað nokkuð í skoðanakosningum undanfarið, og stendur nú á svipuðum stað og í síðustu kosningum, með 34,5 prósent atkvæða.

Aðeins hálft annað ár er frá því Grænlendingar kusu sér síðast þing.

Aleqa Hammond, forsætisráðherra fráfarandi stjórnar og leiðtogi Siumut, neyddist til að segja af sér í byrjun október. Hún hafði þá viðurkennt að hafa notað opinbert fé til þess að greiða fyrir flugmiða og hótelgistingu fyrir sjálfa sig og fjölskyldu sína.

Efnahagsvandræði og efnahagsóvissa hafa hrjáð Grænlendinga undanfarin misseri. Horfin að stóru leyti er sú mikla bjartsýni, sem ríkti fyrir fáum árum, um að Grænlendingar geti á skömmum tíma aflað sér nægilegra tekna til þess að standa sjálfir undir rekstri sjálfstæðs ríkis.

Tekjurnar áttu að koma af námurekstri, með fjármögnun erlendra stórfyrirtækja. Þessu tengist eitt umdeildasta málið fyrir þessar kosningar, sem er bann við úrannámurekstri. Fráfarandi ríkisstjórn nam þetta bann úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×