Erlent

Heimili Íslendings í hættu vegna eldanna

Guðsteinn Bjarnason og Ingvar Haraldsson skrifar
Vatni dreift á eldana. Þyrlur hafa verið notaðar við slökkvistörfin.
Vatni dreift á eldana. Þyrlur hafa verið notaðar við slökkvistörfin. Vísir/AP
Illa hefur gengið að ná tökum á skógareldunum sem geisað hafa á meira en fimmtán þúsund ferkílómetra svæði í Vestmannalandi í Mið-Svíþjóð.

Eldarnir hafa nú logað í eina viku og kostað einn mann lífið. Óttast var að gömul verksmiðja, Engelsbergs bruk, yrði eldinum að bráð, en verksmiðjan þykir einstök og er á heimsminjaskrá Unesco.

Um þúsund íbúar, meðal annars í þremur þorpum, hafa þurft að flýja heimili sín og að auki höfðu í gær um fimm þúsund íbúar bæjarins Norberg verið beðnir um að búa sig undir að yfirgefa bæinn.

Í Norberg býr Íslendingurinn Anna Lindgren og segir hún sumarhús fjölskyldunnar hafa brunnið í eldunum. Anna var í sumarfríi með fjölskyldunni þegar henni var tilkynnt að hún þyrfti að yfirgefa heimili sitt.

„Við fengum vinafólk okkar sem er með lykil að húsinu okkar til að fara heim og ná í myndir og það sem okkur þykir vænt um. Síðan verðum við bara að vona það besta. Við megum ekki fara heim. Það er bara lokað,“ segir Anna.

Í gærkvöldi sagði Anna að húsið stæði enn. „Eldurinn er um fimm kílómetra frá bænum en það hefur lægt aðeins í kvöld.“

Allt að 35 stiga hiti hefur verið á þessu svæði og mikið hvassviðri sem torveldað hefur slökkvistarf. Illa hefur gengið að nota þyrlur til að varpa vatni á eldana vegna reykjarmökksins sem byrgir sýn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×