Erlent

Kim Jong-un ósáttur við veðurfræðinga vegna þurrka í landinu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Leiðtoginn lét veðurfræðinga fá það óþvegið.
Leiðtoginn lét veðurfræðinga fá það óþvegið.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, er ósáttur við veðurfræðingana í landinu. Hann heimsótti opinbera veðurstofu landsins fyrr í dag og skammaði þá fyrir ónákvæmar spár. Og ef reynt er að ráða enn frekar í orð hans virðist hann einnig ósattur við slæmt veður í landinu.

Hann sagði góða spá nauðsynlega „til að vernda eignir og líf fólksins í landinu og verja það fyrir náttúruhamförum sem skapast vegna veðurs.“

Kim Jong-un er duglegur að heimasækja hinar ýmsu stofnanir. Þessar heimsóknir hans eru kallaðar „leiðbeinandi heimsóknir“. Leiðtoginn leggur þá fagfólki línurnar og segir því hvernig hann vilji hafa hlutina. Þó er sjaldgæft að hann lýsi yfir óánægju sinni með stofnanir, fyrirtæki eða starfsfólk eins og hann gerði í morgun. Síðasta heimsókn hans var til dæmis í verksmiðju sem framleiðir vatnsrennibrautir. Leiðtoginn var ákaflega ánægður með þá verksmiðju og sagði hana vera sönnun þess að allt væri hægt í Norður-Kóreu.

Nú eru rétt um tvö ár síðan leiðtoginn var síðast óánægður í „leiðbeinandi heimsókn“. Þá kíkti hann í skemmtigarðinn í Pyongyang . Honum fannst garðurinn ekki nógu skemmtilegur og lét þá skoðun í ljós í opinbera dagblaðinu í Norður-Kóreu, Rodong Sinmun.

Miklir þurrkar hafa geysað í landinu á árinu. Í síðasta mánuði var sagt frá því að nokkur þúsund hektarar af ræktunarlandi hefðu skemmst í þurrkum. Febrúarmánuður á þessu ári var sá þurrasti síðan mælingar hófust og hefur veðrið haft áhrif á hveiti- og kartöfluuppskeru landsins, svo eitthvað sé nefnt. Leiðtoginn er ekki sáttur með það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×